Um þessar mundir er verið að setja upp fjórar hleðslustöðvar við Fjarðarkaup sem eru á vegum samstarfsaðila HS-orku, InstaVolt, sem er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi. Þau reka yfir 2000 hraðhleðslustöðvar þar í landi og eru stærst á því sviði á Bretlandseyjum. Þá eru þau með starfsemi á Írlandi, Spáni, Portúgal og á Íslandi.
Ætla að setja upp 300 stöðvar á Íslandi
InstaVolt stefnir á að setja upp og reka 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu tveimur árum en nú þegar eru stöðvar frá þeim víða um land og margar í uppbyggingu.
Við Fjarðarkaup verða settar upp fjórar stöðvar sem eru með tengjum sem allir bílar geta nýtt sér (CCS og Chademo). „Þó tengin séu tvö á hverri stöð getur einungis ein bifreið hlaðið í einu sem er hluti af áherslu þeirra á afburðaþjónustu; Að þú fáir það afl sem stöðin býður upp á án þess að eiga á hættu að önnur bifreið tengi sig við sömu stöð og helmingi þá það afl sem hver getur notað,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS-orku í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta. Uppsett afl hverrar stöðvar er 160 kW.
Allar stöðvar InstaVolt eru með posa og því er nóg að bera greiðslukort upp að stöðinni til að hefja hleðslu og engin þörf er á að skrá sig áður eða bæta við enn einum „lyklinum“ á lyklakippuna.
Birna segir mikla áhersla vera lagða á góða þjónustu hjá InstaVolt og segir uppitími stöðvanna þeirra 99,9% sem sé afburðagott í öllum samanburði. Fyrirtækið er með íslenskt þjónustuver sem opið er allan sólarhringinn og starfsfólk þeirra fer á milli stöðvanna og gerir við ef þörf er á. Það er þó mest í því að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi.