FH í annað sætið með stórsigri á HK en Haukar töpuðu fjórða leiknum í röð

Haukar fallnir niður í 4. sæti í úrvalsdeild karla

Þegar þrjár umferðir eru eftir á Íslandsmótinu í handknattleik karla er Valur á toppnum með 28 stig, FH er í öðru sæti með 26 eins og Afturelding sem er í 3. sæti en Haukar eru fallnir niður í 4. sæti eftir 2ja marka tap gegn Aftureldingu.

Er þetta fjórði tapleikur Hauka í röð sem virðist vera að fatast flugið í síðustu umferðunum eftir að hafa setið lengi á toppnum.

FH var hins vegar að vinna fimmta leikinn sinn í röð en liðið keppti við HK í kvöld og sigraði með fjórtán marka mun, 34-20 eftir að HK hafði verið yfir fram að 20. mínútu fyrri hálfleiks.

Valur vann enn einn leik sinn er liðið mætti ÍR í kvöld. Áttu þeir reyndar í miklu basli með ÍR inga og unnu með einu marki 24-23 eftir að ÍR hafði fengið nokkur tækifæri á að jafna.

Aðeins munar 6 stigum á Val í efsta sæti og liðinu í 7. sæti en 6 stig eru eftir í pottinum.

Ummæli

Ummæli