Á uppskeruhátíð Hauka í hádeginu í dag var Elín Jóna Þorsteinsdóttir handknattleikskona valin íþróttakona Hauka 2017 og Daníel Þór Ingason handknattleiksmaður var valinn íþróttamaður Hauka 2017.
„Elín Jóna Þorsteinsdóttir hefur verið aðalmarkvörður Hauka undanfarin ár og á stóran þátt í þeim góða árangri sem liðið hefur náð. Elín Jóna hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og verið valin í A landslið Íslands s.l. 2 ár. Það var samdóma álit fréttamanna sem fjölluðu um kvennahandbolta á árinu að Elín Jóna væri einn albesti markvörður Olísdeildarinnar á síðustu og yfirstandandi leiktíð.“
„Daníel Þór Ingason er einn af okkar efnilegu uppöldu leikmönnum og hefur hann verið mjög vaxandi undanfarin ár og er nú einn af burðarásum í liði Hauka. Daníel Þór var boðið ásamt 4 öðrum í æfingabúðir með japanska landsliðinu í 2 vikur í Japan. Hann var valinn í 28 manna landsliðshóp Íslands og lék 5 leiki með A landsliðinu. Hann var kjörinn Leikmaður ársins í handbolta hjá Haukum sl. vor og hefur nú verðið valinn í landsliðshóp Íslands sem leikur í Króatíu nú í janúar.“
Eftirfarandi voru tilnefnd til íþróttakonu Hauka 2017:
- Eva Ósk Gunnarsdóttir, karatedeildar.
- Hildur Adal, almenningsíþróttadeild.
- Alexandra Jóhannsdóttir, knattspyrnudeild
- Þóra Kristín Jónsdóttir, körfuknattleiksdeild.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, handknattleiksdeild.
Eftirfarandi voru tilnefnd til íþróttakarls Hauka 2017:
- Gunnar Ingi Ingvarsson, karatedeild.
- Ingi Páll Sæbjörnsson, almenningsíþróttadeild.
- Daníel Snorri Guðlaugsson, knattspyrnudeild.
- Finnur Atli Magnússon, körfuknattleiksdeild.
- Daníel Þór Ingason, handknattleiksdeild.
Þjálfarar ársins
Þá voru Þeir Emil Barja körfuknattleiksþjálfari og handknattleiksþjálfararnir Einar Jónsson og Elías Már Halldórsson valdir þjálfarar ársins hjá Haukum 2017.
Emil Barja hefur þjálfað í nokkur ár hjá körfuknattleiksdeildinni. Hefur hann staðið sig mjög vel, er óeigingjarn fórnfús þjálfari sem gefur mikið af sér til krakkanna sem hann þjálfar. Emil er ávallt tilbúinn til að aðstoða aðra þjálfara og leikmenn yngri flokka ef á þarf að halda. Emil hefur þjálfað 7.-8. flokk í vetur og eru þetta strákar sem hann hefur þjálfað í nokkur ár. Hefur hann náð að byggja mjög öfluga flokka og leikmenn og eru nú báðir þessir flokkar í A riðli og eiga möguleika á að verða Íslandsmeistarar. Góðir þjálfarar laða að sér iðkendur. Hjá Emil hefur flokkurinn sífellt farið stækkandi og eru nú um 40 iðkendur hjá honum og hefur hann haldið einstaklega vel utan um þesa flokka.
Einar Jónsson og Elías Már Halldórsson eru tilnefndir sem Þjálfarar ársins 2017. Einar og Elías Már þjálfuðu sigursælt lið 3. fl. karla sem sigraði í deildarkeppni HSÍ sl. vetur og í vor hömpuðu þeir síðan Íslandsmeistaratitli 2017 . Á yfirstandandi leiktíð þjálfar Einar ungmennalið Hauka sem leikur í 1. deild og hefur því liði gengið mjög vel í vetur og þar leika framtíðarleikmenn Hauka í harðri deildarkeppni. Elías Már tók við þjálfun kvennaliðs Hauka sl. sumar og hefur liðið vaxið hratt og er nú komið í fremstu röð og er sem stendur í 2. sæti deildarinnar.“