fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttir14 sýktir á Íslandi en enginn alvarlega veikur

14 sýktir á Íslandi en enginn alvarlega veikur

Í dag hafa fimm tilfelli af COVID-19 sjúkdómum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Samtals hafa því fjórtán einstaklingar á fimmtugs- og sextugsaldri verið greindir hér á landi. Hafa þau öll smitast erlendis.

Fólkið er ekki alvarlega veikt. Ellefu þeirra komu í flugi frá Verona á Norður Ítalíu og þrír í flugi frá München í Þýskalandi og voru þau að koma frá Austurríki. Fólkið er nú í einangrun. Sá sem fyrst smitaðist er útskrifaður af Landspítala og er nú heima í sóttkví.

Smitrannsóknateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnalæknis er að störfum. Samtals hafa þau haft samband við um 300 einstaklinga síðastliðna daga.

Í dag voru 29 sýni rannsökuð á Landspítala, þar af reyndust fimm fyrrnefnd tilfelli jákvæð. Frá upphafi hafa um 180 sýni verið rannsökuð. Í kringum 300 manns eru í sóttkví á landinu öllu.

Sápuþvottur góð forvörn

Á upplýsingafundi Samhæfingarstöðvar fyrir fjölmiðla fjallaði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala um COVID 19 veiruna, einkenni hennar og stöðuna í dag. Már hvatti almenning til að fylgja almennum leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Hann lýsti einkennum kórónaveirunnar í samanburði við hina árlegu inflúensu.

Einkennin eru ekki ólík en það er til bóluefni og meðferðarmöguleikar þegar kemur að inflúensu. Kórónaveiran er ný veira og beita þarf einangrun og sóttkví þar til búið verður að þróa bóluefni.

Um 80 prósent þeirra sem greinast með COVID-19 fá væg einkenni, um 15 prósent verða veik með hita og einkenni hliðstæð inflúensu en um 5% veikjast alvarlega.

Veiran getur lifað á yfirborði hluta í 1-9 daga og er því mikilvægt að gæta vel að almennu hreinlæti.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra útskýrði langtímaviðbrögð stjórnvalda við COVID-19. Sagði hann nauðsynlegt að horfa af yfirvegun fram í tímann. Sagði hann okkur vera í upphitun fyrir verkefni næstu mánaða.

Gæta þarf að umfjöllun – ekki síst í návist barna

Jóhann Thoroddsen, sálfræðingur hjá Rauða krossinum fjallaði um nauðsyn þess að fólk hlúi að andlegri líðan sinni og sinna nánustu. Umfjöllun getur valdið kvíða og er því mikilvægt að foreldrar sýni sérstaka aðgát í návist barna.  Varist sögusagnir sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Lifi eðlilegu lífi og haldi ró sinni við þessar óvenjulegu aðstæður.

Mun fleiri deyja úr árlegri flensu

Á vefnum Worlometer kemur fram að 3.137 séu látnir vegna córónavíruss þetta árið en bent er jafnframt á að 83.429 séu látnir úr árlegri flensu sem af er þessu ári en áætlað er að 290-650 þúsund manns deyi árlega af hefðbundnum flensuvírusum.

Hlutfall smitaðra á Íslandi er nú orðið 0,0039% sem er hærra en á Ítalíu þar sem það er 0,0034%. Hafa ber í huga að e.t.v. er hærra hlutfalla smitaðra sem eru greindir, hærra á Íslandi en víða annars staðar vegna smæðar þjóðfélagsins.

Í Kína eru 80.152 skráðir smitaðir sem gerir 0,0056% þjóðarinnar.

Í Noregi eru 32 smitaðir sem er 0,0006% þjóðarinnar.

Í Svíþjóð eru 24 smitaðir sem er 0,0002% þjóðarinnar.

Í Danmörku eru 6 smitaðir sem er 0,0001% þjóðarinnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2