Bjargar norðanáttin hlaupurunum í dag? – Enn eitt óveðurshlaupið

Hlaupið eftir Strandstígnum hefst kl. 19 í kvöld við Íþróttahúsið við Strandgötu

Gusurnar gengu yfir hlauparana við ströndina á Herjólfsgötu

Í kvöld er komið að öðru hlaupinu í hlauparöð FH og Bose en fyrra hlaupið var 30. janúar þegar gul viðvörun var í gangi og hlauparar fengu hressilegt sjórok yfir sig á Herjólfsgötunni. Þrátt fyrir vonda veðurspá tóku tæplega 400 manns í þessu 5 km hlaupi sem er síðasta fimmtudag í mánuði, janúar, febrúar og mars.

Í kvöld er spáð 10-12 m/s að norðan og um -5°C og hefur Veðurstofan sent út gula viðvörun á höfuðborgarsvæðinu. Snjónum hefur kyngt niður í frostinu svo líklegt er að hlaupaleiðin verði þungfær þó búast megi við að leiðin verði að mestu leyti skafin. Þó er miðbærinn skjólgóður í norðanátt og líklegt að mun minni vindur verði á stærstum hluta leiðarinnar.

Hlaupið er frá Íþróttahúsinu við Strandgötu, eftir Strandstígnum út að Hrafnistu, þaðan um Naustahleinina og til baka Herjólfsbrautina og eftir strandstígnum.

Þarna keppa hlauparar á öllum aldri og af öllu getustigi og markmiðið hjá lang flestum er aðeins að njóta þess að hlaupa í góðum hópi.

Hlaupið verður ræst kl. 19 en búast má við fyrstu hlaupurum í mark rúmlega 15 mínútum seinna en flestir gefa sér mun meiri tíma í hlaupið.

Tæplega 400 manns eru skráðir í hlaupið þrátt fyrir veðurspá.

Bæjarbúar eru að sjálfsögðu hvattir til að fylgjast með og hvetja hlaupara til dáða en þeir koma víða að, þó flestir af höfuðborgarsvæðinu.

Ummæli

Ummæli