Útsvar og fasteignagjöld – talnaleikir meirihlutans

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Árni Rúnar Þorvaldsson

Forystumenn meirihluta Sjálfstæðis­flokks og Framsóknarflokks og óháðra hafa gert mikið úr því að Samfylkingin sé flokkur skattahækkana. Samfylkingin hefur nefnilega lagt til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfi­legt útsvarshlutfall til að styrkja stöðu bæjarsjóðs og bæta þjónustu. Formaður bæjarráðs segir það ekki sam­­rýmast stefnu meiri­hlutans enda sé það mark­mið hans að létta undir með fjöl­skyldufólki í bænum. Það er gott og blessað en þá myndi maður ætla að þessi stefna meiri­hlutans ætti við um aðra skatt­stofna í bænum, t.d. fasteignaskatta og gjöld.

Hækkun fasteignamats en óbreytt álagning

Tillaga meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra er að álagningarhlutfallið, sem er 0,26% af fasteignamati, haldist óbreytt á næsta ári þrátt fyrir hækkun fasteignamats sem þýðir þá í reynd skattahækkun á fasteignaeigendur í Hafnarfirði. Að óbreyttu mun því fasteigna­skattur í Hafnarfirði á næsta ári verða á bilinu 6,9-9,4% hærri en á þessu ári, eftir tegund og stað­setn­ingu húsnæðis. Ef mið er tekið af fjölskyldu í fjölbýli á Völlunum þá hækka fasteigna­gjöld hennar um rúmlega 8% milli ára. Ég á erfitt með að sjá hvernig þessi hækkun sam­rýmist áherslum meirihlutans um að létta undir með fjöl­skyldu­fólki í bænum. Auk þess eru þess­ar hækkanir út úr öllu korti þegar þær eru settar í samhengi við tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga í vor um að gjöld á vegum sveitarfélaga hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári. Meirihlutinn hefur tilmælin að engu með þessum hækkunum á fast­eigna­gjöldum.

Hver eru áhrifin á fjölskyldufólk í bænum?

Meirihlutinn hefur mikinn áhuga á að láta það líta út fyrir að hann sé að hugsa um fjölskyldufólk með því að fullnýta ekki leyfilegt útsvarshlutfall. Þetta er í versta falli blekkingarleikur en í besta falli talnaleikir því það sem fólk heldur eftir í hægri vasanum tekur meirihlutinn úr vinstri vasanum í gegnum fast­eignagjöldin. Það er lágmark að bæjar­stjórn Hafnarfjarðar sýni íbúum það svart á hvítu hvaða áhrif hækkun fast­eignamats og óbreytt álagning fasteignaskatts hefur á fasteignaeigendur í bænum. Gjaldskrárhækkanir hefur meirihlutinn kallað leiðréttingar. Kannski ætlar hann líka að kalla þyngri greiðslubyrði vegna fasteignagjalda leiðréttingu.

Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði

Ummæli

Ummæli