Tækifærin í Hafnarfirði

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Stefán Már Gunnlaugsson

Það skiptir máli hvernig málefnum bæjarfélags er stjórnað og forgangsraðað. Í Hafnarfirði hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd s.l. átta ár.  Síðla árs 2019 fagnaði bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins þeim áfanga að Hafnfirðingar væru orðnir 30.000. Sú gleði stóð ekki lengi. Ári síðar hafði íbúum fækkað um 300 og var mesta fækkunin á landsvísu það árið. Enn situr við sama heygarðshornið. Fólksfjölgun er langt undir væntingum og íbúafjöldi enn ekki aftur náð 30.000. Á sama tíma hefur verið mikil fólksfjölgun og uppbygging íbúðarhúsnæðis í nágrannasveitarfélögum.

Einkavæðing leik- og grunnskóla

Fólksfækkunin hefur áhrif á uppbyggingu bæjarins og tekjur bæjarsjóðs. Til mæta útgjöldum og greiða niður skuldir, þá seldi meirihlutinn undir forystu Sjálfstæðisflokksins eignarhlut bæjarins í HS veitum. Innviði sem gáfu fastar tekjur. Það er til vitnis um skammsýni og lélega fjármálastjórn að selja innviði til að standa undir útgjöldum ef eitthvað út af bregður. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að einkavæða innviði og grunnþjónustu. Við höfum reynslu af því í Hafnarfirði, þegar Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins fór að einkavæða og selja leik- og grunnskóla í Hafnarfirði. Það endaði með ósköpum. Jafnaðarmenn í Samfylkingunni náðu að bjarga því. Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að einkavæða næst? Höfnina, vatnsveituna eða leik- og grunnskólana?

Rétt forgangsröðun

Hafnarfjörður er fallegur bær í einstæðu umhverfi og umvafinn óspilltri náttúru með fjölbreyttu mannlífi og menningu. Hér var löngum framsækið sveitarfélag sem var þekkt af jöfnuði og velferð fólksins, einkum fjölskyldna og þeirra sem minnst mega sín. Við þurfum að horfa til framtíðar, hlúa að öflugu atvinnulífi og forgangsraða í þágu fjölskyldunnar og barna. Að bærinn fari aftur að vaxa með kröftugri uppbyggingu húsnæðis með áherslu á íbúðir fyrir ungt fólk.

Tími breytinga

Framundan er vorið, tími hækkandi sólar. Við þurfum líka breytingar í stjórn bæjarins. Það er ekki hægt að una lengur við doðan og úrræðaleysið. Hér þarf að snúa vörn í sókn með fólkinu í bænum og efla Samfylkinguna til sigurs í bæjarstjórnarkosningunum í vor.

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi
og gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði 

Ummæli

Ummæli