Skortir vilja til þess að hækka frístundastyrkinn?

Árni Rúnar Þorvaldsson og Sigrún Sverrisdóttir skrifa

Árni Rúnar Þorvaldsson og Sigrún Sverrisdóttir

Öll börn og ungmenni eiga rétt á því að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag. Þess vegna hafði Samfylkingin forystu um að Hafnarfjörður varð fyrsta sveitar­félagið til að setja á fót frístundastyrk fyrir börn og ungmenni árið 2002. Mjög mörg sveitarfélög hafa síðan fylgt í kjölfarið og nú hefur hróður frístunda­styrksins náð út fyrir land­steinana því nýlega bárust fréttir af áhuga ríkis­stjórnar Noregs. Það er einnig ánægju­legt að kerfið hefur haldið áfram að þróast og nú geta eldri borgarar einnig sótt um frístundastyrk sem ætlað er að styðja við bakið á þeim í íþrótta- og tómstundastarfi.

Ákvörðun fræðsluráðs snúið við í bæjarstjórn

Mikilvægt er að styrkurinn haldi í við verðlagsþróun iðkendagjalda og hafnfirsk börn og ungmenni eiga a.m.k. að standa jafnfætis börnum og ung­mennum í öðrum sveitarfélögum. Þess vegna lagði Samfylkingin til hækkun frístundastyrksins við gerð síðustu fjárhagsáætlunar. Tillögunni var vísað til umsagnar í fræðsluráði. Fræðsluráð samþykkti einróma 6.000 kr. hækkun á ársgrundvelli. Við síðari umræðu um fjárhagsáætlun hafði meirihluta bæjar­stjórnar hins vegar snúist hugur og var tillögunni snúið aftur til fræðslu­ráðs vegna ófullnægjandi undirbúnings að mati meirihlutans. Bæjarfulltrúar Sam­fylkingarinnar mótmæltu þessum vinnu­brögðum enda væri þá engin trygging fyrir því að hækkunin tæki gildi á þessu ári sem var markmið tillög­­unnar.

Jafn aðgangur mikilvægur

Frá þeim tíma hefur málið velkst um í bæjarkerfinu. Fræðsluráð vísaði málinu til umsagnar í fjölskylduráði sem frestaði ákvörðun fram á mitt ár. Þessi vinnubrögð eru ekki traust­vekjandi og fólk spyr sig í framhaldinu hvers virði ákvarðanir fræðsluráðs eru þegar afdrif þeirra eru með þessum hætti í bæjarstjórn. Málsmeðferð meiri­hlutans á þessari einföldu tillögu Sam­fylk­ingarinnar hefur því miður einkennst af hringlandahætti og töfum.

neitanlega læðist sá grunur að okkur að pólitískur uppruni tillögunnar sé undirrót tafa og hringlanda meirihlutans. Það er afar dapurt ef tillögur í bæjar­stjórn eru meðhöndlaðar á þessum forsendum af meirihluta bæjarstjórnar á hverjum tíma. Samfylkingin leggur áherslu á jafnan aðgang barna og ungmenna að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að hækkun frí­stundastyrks taki gildi á þessu ári.

Sigrún Sverrisdóttir
fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði.

Árni Rúnar Þorvaldsson
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnfirðinga 21. febrúar 2019

Ummæli

Ummæli