fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimUmræðanPrófkjör Hafnfirðinga  - valið er okkar

Prófkjör Hafnfirðinga  – valið er okkar

Kristinn Andersen skrifar

Fyrir fjórum árum hlaut ég víðtækan stuðning til að skipa 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnar í Hafnarfirði og hef ég ákveðið að gefa kost á mér til þess áfram í prófkjörinu 3. til 5. mars nk.

Árangur til að byggja á

Við síðustu bæjarstjórnarkosningar hlaut Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði öflugan stuðning kjósenda sem veitti okkur umboð og styrk til að leiða stjórnun bæjarins næstu fjögur árin.

Fjárhagur Hafnarfjarðar hefur tekið stakkaskiptum svo um munar. Skuldaviðmið bæjarins, sem er mælikvarði á heildarskuldir í samanburði við tekjur bæjarins, hefur farið jafnt og þétt lækkandi og er nú að verða það lægsta sem verið hefur í áratugi. Með lækkandi skuldum minnkar vaxtabyrði bæjarins og meira verður aflögu fyrir framkvæmdir og þjónustu við íbúa.

Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að stilla álögum á íbúa og fyrirtæki í hóf eins og kostur er. Þannig höfum við lækkað álagningarprósentu fasteignaskatta til að vega gegn hækkandi fasteignamati ríkisins. Unnið hefur verið að því að halda gjaldskrám bæjarins óbreyttum eða með lágmarkshækkunum, undir verðbólgu. Þá er Hafnarfjörður núna í hópi þeirra sveitarfélaga sem ekki taka hæsta leyfilega útsvar af launum íbúa sinna.

Á sama tíma og tekið hefur verið til í fjármálum bæjarins hefur Hafnarfjörður vaxið og dafnað svo eftir hefur verið tekið. Hafnarfjörður er orðinn háskólabær, þar sem Háskóli Íslands hefur flutt alla kennslu sína í tæknifræði hingað í Menntasetrið við Lækinn og náðst hefur samkomulag um að Tækniskóli Íslands flytji starfsemi sína í Hafnarfjörð, sem hvort tveggja eykur tækifæri fyrir ungt fólk og samstarf við atvinnulífið.

Öfluga forystu áfram í bæjarstjórn

Ég tel að bakgrunnur minn og reynsla, með kosningu í 2. sæti, verði framboðslista okkar styrkur í komandi bæjarstjórnarkosningum og verkefnum næstu fjögurra ára. Sem forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs hef ég beitt mér fyrir að stefnumál okkar ásamt öðrum framfaramálum á vettvangi bæjarstjórnar, eins og þau sem hér hafa verið nefnd, hafi náð fram að ganga. Það verður val kjósenda að tryggja áfram öfluga forystu okkar í bæjarstjórn til næstu fjögurra ára og þar býð ég fram krafta mína.

Kristinn Andersen,
verkfræðingur og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2