Nauðsyn bakhjarla að árangursríku samstarfi í íþróttabænum Hafnarfirði

Hrafnkell Marinósson, formaður ÍBH skrifar:

Hrafnkell Marinósson

Hafnarfjörður er íþróttabær og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar þar sem allir Íslandsmeistarar fá viðurkenningu í lok hvers árs er staðfesting á því. Á síðasta ári voru t.d. verðlaunaðir 474 Íslandsmeistarar í 22 íþróttagreinum. Það er ljóst að baki þessa góða árangurs eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif.

Stuðningur bæjarfélagsins og ekki síður bakhjarla skiptir miklu máli fyrir Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) og íþróttafélögin í Hafnarfirði. Nægir þar að nefna samning ÍBH og ÍSAL sem hefur verið í gildi í áraraðir (2001) og hefur ÍSAL styrkt myndarlega barna- og unglingastarf hafnfirskra íþróttafélaga. Samningurinn markaði ákveðin tímamót á sínum tíma því hann fól í sér ákveðnar skyldur íþróttafélaga, t.d. er varðar jafnræði kynja en veitt eru verðlaun til þeirra félaga sem hafa verið dugleg að jafna bilið.

Samningurinn hefur einnig haft fjölbreytt og jákvæð áhrif á starfsemi ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar er varðar íþróttastarfið í bæjarfélaginu. Í dag leggja félögin sérstaka áherslu á að vera með vel menntaða þjálfara þar sem áðurnefndur samningur felur í sér hvata fyrir aukinni menntun en sérstakir styrkir fara til félaganna eftir menntunarstigum þjálfara. Haldin er nákvæm tölfræði um árangur og menntunarstig þjálfara sem gefur skýra mynd af stöðunni í Hafnarfirði. Tölfræðin gefur jafnframt til kynna þær framfarir sem hafa átt sér stað í menntun þjálfara í öllum þeim fjölbreyttu íþróttagreinum sem eru stundaðar í Hafnarfirði á viðkomandi tímabili.

Samningar sem þessir auka faglega samvinnu, auka gagnkvæma virðingu og auka sýnileika bakhjarla fyrir íþróttahreyfinguna. Samningar þurfa hins vegar að fela í sér skýr ákvæði og fela í sér ávinning fyrir báða aðila. Þannig má fullyrða að samningurinn við ÍSAL hafi markað ákveðin þáttaskil í hafnfirsku íþróttalífi þar sem fjölmargir hvatar koma inn til að efla barna- og unglingastarf og vonandi eiga fleiri bakhjarlar eftir að bætast við á komandi árum enda ávinningurinn gríðarlegur. Í Hafnarfirði eru stjórnmálin lífleg og oft eru menn ekki sammála en hvað varðar íþróttirnar og samninginn við ÍSAL þá ríkir pólitísk sátt um slíka samninga þar sem þeir stuðla að öflugra íþróttalífi.

Hrafnkell Marinósson, formaður ÍBH.

Greinin birtist fyrst í 20. tbl. Fjarðarfrétta, 17. árg., 29. maí 2019.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here