Meirihlutinn seilist í vasa aldraðra og öryrkja 

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar:

Árni Rúnar Þorvaldsson

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra ásamt fulltrúa Viðreisnar samþykkti á síðasta fundi fjölskylduráðs gjaldskrárhækkanir á heimaþjónustu aldraðra og öryrkja og ferðaþjónustu aldraðra. Heimaþjónustan hækkar um tæp 25% og ferðaþjónustan um rúmlega 100%. Samfylkingin lagði til að gjaldskrárhækkanir næsta árs tækju mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð lífskjarasamninga. Sambandið beindi þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækkuðu ekki um meira 2,5% á næsta ári og minna ef verðbólga reyndist lægri. Þessu höfnuðu fulltrúar meirihlutans og Viðreisnar. Svona ætlar meirihlutinn að sækja auknar tekjur í bæjarsjóð upp á rúmar fimm milljónir úr vösum aldraðra og öryrkja.

Leiðréttingar – nýtt orð yfir hækkanir

Meirihlutanum er tamt að tala um hækkanirnar sem leiðréttingar. Gjaldskráin í Hafnarfirði hafi verið lægri en í mörgum sambærilegum sveitarfélögum. Með öðrum orðum þá telur meirihlutinn að fólkið sem nýtir sér þjónustuna hafi notið of góðra kjara undanfarin ár. Leiðrétting er þægilegra orð yfir hækkanir og lítur betur út. Leiðréttingarnar munu hins vegar leiða til hækkana og leggjast með jafn miklum þunga á notendur og ef þær hefðu verið kallaðar sínu rétta nafni – hækkanir.

Stefna Sjálfstæðisflokksins ræður för

Hvort sem um er að ræða hækkanir eða leiðréttingar þá er hér á ferðinni grundvallarstefið í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það felst í því að hækka álögur á einstaka hópa í samfélaginu og notendur velferðarþjónustu á sama tíma og leitað er leiða til þess að lækka álögur á þá hópa sem best standa í samfélaginu. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir ári síðan þá hafnaði meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og óháðra tillögu Samfylkingarinnar um að fullnýta útsvarið en treysti hins vegar á tekjur af lóðasölu. Lækkun útsvars nýtist fyrst og fremst þeim tekjuhæstu og ýtir undir misskiptinguna auk þess sem áætlanir um lóðasölu gengu engan veginn eftir. Því vantar fjármuni í bæjarsjóð núna og þá leggur meirihlutinn í fjölskylduráði til, með stuðningi Viðreisnar, að seilst verði í vasa aldraðra og öryrkja. Samfylkingin leggst gegn þessari stefnumörkun meirihlutans vegna þess að jöfnuður og öflug velferðarþjónusta eru forsenda réttláts samfélags og efnahagslegs stöðugleika.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði 

Ummæli

Ummæli