fbpx
Laugardagur, nóvember 2, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanLífsgæðasetrið í St. Jó

Lífsgæðasetrið í St. Jó

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Í byggingu St. Jó hefur verið unnið að því hörðum höndum að koma Lífsgæðasetrinu sem þar mun vera til húsa í fulla starfsemi. Og er það vel enda um spennandi starfsemi að ræða sem er í takt við áherslur Heilsubæjarins Hafnarfjarðar.

Viðauki við fjárhagsáætlun til að mæta kostnaði

Aðeins tæplega tveimur mánuðum frá því að fjár­hagsáætlun fyrir árið 2019 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnar­fjarðar var borinn upp til samþykktar viðauki við fjárhagsáætlun upp á 79 milljónir króna. Er um ræða tilfærslu frá öðrum lið í fjárhagsáætluninni sem er hluti af því sem Hafnarfjarðarbær þarf að greiða vegna tvöföldunar Reykjanes­brautar sem er að hefjast. Er þetta gert með þá von í huga að þau útgjöld komi ekki til fyrr en á árinu 2020. Við sjáum hvað setur með það.

Fjárhagsáætlun er stefnuyfirlýsing meiri­­hluta hverju sinni

Mér finnst það skjóta skökku við að meirihlutinn sem lagt hefur mikla áherslu á að koma lífi aftur í húsakynni St. Jó skuli ekki hafa ætlað meira fjár­magn en þær 8 milljónir sem áætlaðar voru í fjárhagsáætlun 2019 í verkefnið. Það ber ekki vott um stefnufestu í málinu hvað þá framsýni eða góða áætl­unar­gerð meirihlutans þar sem öllum hlýtur að hafa verið ljóst að hærri upphæð þyrfti til að koma hluta af eigninni í nothæft ástand svo starfsemi gæti hafist í húsnæðinu.

Áætlaður heildar­kostn­­aður við endur­bætur hækkar um 100%

Nú liggur fyrir að mat á heildar­kostnaði við endurbætur á St. Jó er rúmar 449 milljónir króna og fer því rétt rúmlega 100% fram úr því mati á kostnaði við endurbæturnar sem birtist í frummati Strendings frá 27. mars 2017 en það var rúmar 223 milljónir króna.
Ég geri mér grein fyrir að um frum­mat var að ræða og ljóst yrði að það kæmi til einhverjar hækkunar. En ég velti fyrir mér, þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða, hvort ekki hefði þurft að fara í ítarlegri greiningu á framkvæmdaþörf til að koma hús­næð­inu í viðunandi horf þegar ráðist var í að kaupa húsið af ríkinu á sínum tíma. Nú er ljóst að kaupverð og kostnaður við endurbætur á húsnæðinu fara í það minnsta í 600 milljónir króna.

Ekki öll kurl komin til grafar?

Ég hef áhyggjur af því hvað endur­bætur á St. Jó munu kosta bæjarfélagið á endanum.
Ég er á engan hátt að gera þetta tor­tryggilegt. En áhyggjur mínar beinast að því að enn eigi eftir að koma til ófyrirséður kostnaður sem á eftir að leggjast ofan á þá upphæð sem nú er lögð fram sem heildarkostnaður við endurbæturnar. Við verðum að vanda okkur á öllum sviðum framkvæmd­arinnar í framhaldinu til að tryggja það eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að þær áhyggjur mínar verði að veruleika.

Friðþjófur Helgi Karlsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnarfjarðar 6. mars 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2