fbpx
Föstudagur, apríl 19, 2024
HeimFréttirPólitíkLand tækifæranna

Land tækifæranna

Sigþrúður Ármann skrifar:

Á síðustu árum hefur margt áunnist fyrir sakir þeirrar stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. Frá árinu 2013 hefur efnahags­stefna flokksins verið grund­völlur ríkisfjármálanna. Við höfum lækkað skatta án þess að skerða þjónustu. Við höfum stóraukið gagnsæi í ríkisfjármálum með birtingu og betri framsetningu gagna, til dæmis í gegnum vefina tekjusagan.is og opinber­um­svif.is. Við höfum sett af stað stórsókn í rafrænni stjórnsýslu og viljum gera enn meira í þeim málum, í þágu borgaranna. Ríkið á að veita borgunum góða þjónustu, gera hana aðgengilegri, hagkvæmari, einfaldari og fljótvirkari. Þannig nýtum við skatt­fé almennings betur.

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur öflugrar velferðar. Verðmætasköpunin sem stendur undir rekstri ríkissjóðs verð­ur til í atvinnulífinu, fyrir tilstilli fólksins í landinu. Skattfé verður ekki til í ráðuneytum eða ríkisstofnunum. Öflug atvinnulíf er þannig forsenda þess að hér sé rekið öflugt velferðarkerfi og öflugt öryggisnet til handa þeim sem þurfa á því að halda. Hvetjandi um­­hverfi leiðir af sér aukna hagsæld fyrir samfélagið allt og eykur lífsánægju fólks. Það er allra hagur.

Núverandi ástand í atvinnumálum þeirra sem teljast eldri borgarar er óásættanlegt. Það er óásættanlegt að ein tala segi til um það hvenær einstaklingur telst ekki lengur ákjósanlegur þátttakandi á vinnumarkaði. Það er óásætt­anlegt að einstaklingar sem hafa áhuga á að vinna lengur en til 67 ára geti ekki gert það nema með verulegri skerðingu á afkomu. Þessu viljum við breyta. Tillögur Sjálfstæðis­flokksins í ellilífeyrismálum, þar sem hækkun á frítekju­marki er fyrsta skref, eru raunhæfar og eftirsóknarverðar. Endurskoðun kerf­isins samkvæmt þessum sömu tillögum mun svo tryggja afkomuöryggi þeirra sem ekki eiga sterk lífeyrisréttindi. Þær gera eldri borgurum kleift að vera lengur á vinnumarkaði óski þeir þess. Þær efla sjálfsákvörðunarréttinn og auka frelsi þeirra til eigin ákvarðana og athafna.

Setjum X við D og tryggjum áfram­haldandi stöðugleika og jákvæðar breytingar. Þannig höldum við áfram að gera Ísland að landi tækifæranna.

Sigþrúður Ármann
skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2