Innantóm loforð og aðgerðarleysi í húsnæðismálum Hafnfirðinga!

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Friðþjófur Helgi Karlsson

Í samstarfssáttmála núverandi meiri­hluta í Hafnarfirði er sérstaklega tiltekið; ,,að unnið skuli að því að skapa fjölbreytt val fyrir þann fjölbreytta hóp sem byggir Hafnarfjörð, hvort sem fólk vill búa í litlu eða stóru húsnæði, eiga, leigja eða velja sér aðra búsetukosti.‘‘
Litlar hafa efndirnar verið og hinn sanna vilja virðist skorta. Fögur fyrirheit eru ekki það sama og efndir í formi fram­kvæmda. Það er ljóst.

Áður hef ég ritað um hversu hægt úthlutun lóða í Skarðshlíð hefur gengið, hve lítið hefur náðst fram í vinnu við þéttingaráætlun og þann skort sem er á góðu samstarfi við fasteignafélög verkalýðs- og stéttarfélaga sem byggja vilja litlar og meðalstórar íbúðir fyrir tekju­lága einstaklinga og fjölskyldur.

Sem dæmi um þetta má nefna að þann 5. júlí 2016 var undirrituð viljayfirlýsing Hafnarfjarðarbæjar og Alþýðusambands Íslands um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði fram til ársins 2019. Þegar þetta er ritað á vormánuðum 2018 er engin leiguíbúð í byggingu í Hafnarfirði á grunni þessarar viljayfirlýsingar. Sam­kvæmt fréttatilkynningu sem birtist á vef Hafnarfjarðarbæjar sama dag og vilja­yfirlýsingin var undirrituð átti að afhenda lóðir fyrir 60 íbúðir á árunum 2016-2017 og 90 íbúðir á árunum 2018-2019.

Það eina sem gert hefur verið er að afhenda lóð undir 32 íbúðir (sem síðar var fjölgað í 42 við breytingu á skipulagi) við Hraunskarð 2 í Skarðshlíð. Það var 12. september 2016. Enn eru engar framkvæmdir farn­­ar af stað í Hraunskarði því skipulag­sskilmálar standa í vegi fyrir því að hægt sé að byggja þar upp á hagkvæman hátt að mati lóðarhafa, fasteignafélagsins Bjargs sem er framkvæmdaraðili fyrir ASÍ.

Hverju sætir þetta dugleysi til að taka ákvarðanir um hraða og örugga upp­byggingu á hagkvæmu leiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur? Hvers má t.d. unga fólkið okkar gjalda sem ekki kemst úr foreldrahúsum því ásættanlegir búsetukostir eru ekki til staðar hér í bæ.

Á sama tíma er allt á hraðferð í þessum málum í Reykjavík og fleiri sveitar­félög­um. Fyrir utan allar þær leiguíbúðir sem verið er að reisa í Reykjavík þessi misserin kemur fram í frétt RÚV þann 16. mars síðastliðinn að þar eigi að reisa samtals 500 íbúðir fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Markmiðið með þeirri uppbyggingu er að auðvelda þeim, sem ekki geta reitt fram mikið eigið fé, að komast í gott húsnæði. Borgin hyggst úthluta lóðum á sérkjörum og tryggja að íbúarnir njóti þess afsláttar.
Það verður kannski svo að unga fólkið okkar hér í Hafnarfirði sér ekki þann kost að hefja búskap á sínum heimaslóðum heldur er nauðbeygt til að flytja í önnur sveit­­­ar­félög þar sem betur er staðið að mál­um. Við erum í samkeppni um unga fólkið og þeirri samkeppni höfum við Hafn­­firðingar einfaldlega ekki efni á að tapa!

Friðþjófur Helgi Karlsson
varabæjarfulltrúi, fulltrúi í umhverfis- og framkvæmda­ráði og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here