fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttirPólitíkÍ landi kvíða og samfélagsmiðla

Í landi kvíða og samfélagsmiðla

Jón Grétar Þórisson skrifar

Á síðari árum hefur í auknu mæli orðið vart við vaxandi kvíða og vanlíðan hjá ungu fólki. Ástæðurnar geta verið margvíslegar og erfitt að átta sig á hvað veldur. Margir benda þó á samfélagsmiðla sem eina helstu orsökina, þeir bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til samskipta, alls konar forrit og alltaf bætast ný og ný við.

Samfélagsmiðlar og ungt fólk

Samskipti unglinga fara að mestu fram í gegnum þessa samfélagsmiðla, þeir eru opnir allan sólarhringinn og alltaf hægt að senda skilaboð, spegla sig í myndum og frásögnum annarra. Samskiptin eru hröð, áreitið mikið, margir hvatvísir og gera auðveldlega mistök sem geta varðveist að eilífu en það getur haft mikil áhrif á ungmenni. Þess vegna telja margir að samfélagsmiðlar geti haft neikvæð áhrif á ungmenni og að nauðsynlegt sé að vinna með ungmennum í að nota þá á jákvæðan hátt.

Tómstundir ungmenna

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka ungmenna í tómstundastarfi, íþróttum og menningarmálum hafi jákvæð áhrif á líf þeirra og líðan. En það finna sig ekki allir í hefðbundnu tómstundastarfi og þess vegna er nauðsynlegt að finna nýjar leiðir og útbúa ný tækifæri en einnig að hlúa að þeim úrræðum sem eru í boði. Það er mikilvægt að bjóða upp á öruggt umhverfi þar sem ungmenni geta átt uppbyggileg og heilbrigð samskipti. Svæði þar sem þau geta stundað sín áhugamál, kynnst nýju fólki og bætt við hæfni sína. Það er einmitt tilgangur ungmennahúsa.

Setjum ungmennahús í forgang

Í Hafnarfirði eru starfrækt tvö ungmennahús, þar sem ungmenni Hafnarfjarðar eiga sitt athvarf og hefur verið mikil ánægja með starfsemina þar. En því miður hefur starfsemi ungmennahúsa ekki alltaf verið í forgangi bæjaryfirvalda, fjármagn skorið við nögl og segja má að starfsemin sé rekin áfram á loftinu einu saman þó útsjónarsemi starfsmanna hafi nú oft bjargað málum fyrir horn. Það er nauðsynlegt að gera bragarbót á málefnum ungmenna í Hafnarfirði og af ýmsu er að taka. Til dæmis er húsnæði lítið og þröngt og nauðsynlegt að bregðast við því. Við hlið Hamarsins ungmennahúss Hafnarfjarðar er til dæmis laust húsnæði, þar sem prentsmiðja Hafnarfjarðar var til húsa, með því að fá það til umráða myndi rými Hamarsins stækka til muna og hægt væri að bæta starfsemina og möguleika ungmenna til að sinna hugarefnum sínum.

Fagfólk í ungmennahús

Eins og áður sagði þá líður mögum ungmennum ekki vel, eru kvíðin og eiga erfitt með að finna sér uppbyggileg verkefni. Með því að ráða sérmenntað fólk; sálfræðinga, félagsfræðinga og tómstunda- og félagsmálafræðinga til að vinna með ungmennunum þá eru meiri möguleikar á því að hægt sé að bjóða upp á faglega vinnu með ungmennunum.

Við sem jafnaðarmannaflokkur hljótum að vilja jafna aðstöðu barna, unglinga og ungmenna og það er í okkar höndum ef við komumst í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og býð ég mig fram til að taka þátt í þeirri vinnu.

Jón Grétar Þórsson formaður Samfylkingar félagsins í Hafnarfirði og fulltrúi Samfylkingarinnar  í hafnarstjórn.

Höfundur býður sig fram í 3. til 5. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar þann 12. febrúar.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2