fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimUmræðanHjúkrunarheimili og heilsugæsla á Vellina

Hjúkrunarheimili og heilsugæsla á Vellina

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar var samþykkt af öllum flokkum að heilsugæsla og hjúkrunarheimili rísi í Hamranesi sem þjóni íbúum í Vallahverfi, Skarðshlíð og Hamranesi, og hefja undirbúning og viðræður við heilbrigðisráðuneytið sem fyrst. Það er í höndum bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.

Samfylkingin í Hafnarfirði hefur um langt skeið barist fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimilis og heilsugæslu í þessum hverfum. Þegar þau verða fullbyggð munu búa þar um 10.000 manns. Mikilvægt er að í vaxandi hverfum sé boðið upp á fjölbreytta þjónustu og atvinnu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt þessu lítinn áhuga. Árið 2013 var samþykkt af öllum flokkum sem þá voru í bæjarstjórn að hefja undirbúning á byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. Að baki þeirri ákvörðun lá mikil vinna sem náði aftur til ársins 2006, en svo komst Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta árið 2014 og tók u-beygju og hætti við uppbyggingaráformin. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hjúkrunarheimili í þessum hverfum.

Nú er hins vegar ástæða til að fagna sinnaskiptum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingin hefur ekki látið deigan síga í málinu, barist fyrir byggingu hjúkrunarheimilis og heilsugæslu á Völlunum. Sú barátta er núna að skila árangri.

Nauðsynlegt er að halda áfram uppbyggingu hjúkrunarheimila í Hafnarfirði sem því miður hefur ekki haldist í hendur við aukna þörf og langa biðlista. Þá er gott aðgengi að heilsugæslu í nálægð við heimili fólksins grundvallaratriði fyrir alla aldurshópa og ekki síst í barnmörgu hverfi.

Mikilvægt er að hlúa að fjölbreyttu og góðu samfélagi þar sem rofin er einangrun eldri borgara og tryggja þjónustu í hæsta gæðaflokki í nýjum hverfum.

Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2