Hafnarfjörður úr takti

Sigurður Þ. Ragnarsson og Gísli Svein­bergs­son skrifa.

Sigurður Þ. Ragnarsson og Gísli Sveinbergsson

Enn dregur í sundur milli Hafnar­fjarðar og annarra sveitarfélaga á höfuð­borgarsvæðinu þegar kemur að fjölda íbúða í byggingu.

Í lok mars sl. voru 104 íbúðir alls í byggingu í Hafnarfirði og er það lang minnsti fjöldi allra sveitarfélaga á höfuð­borgarsvæðinu utan Seltjarnar­ness. Næst kom Mosfellsbær með 510 íbúðir eða fimmfalt fleiri. Í Garðabæ 637, í Kópavogi 1.081 eða tífalt fleiri og í Reykjavík 2.642 eða 25 falt fleiri en í Hafnarfirði.

Fjöldi íbúða í byggingu hefur stöðugt verið að dragast saman síðustu ár og nú er svo komið að vöntun á framboði nýrra íbúða er farin að hafa neikvæð áhrif á fólksfjölgun í bæjarfélaginu. Fólksfjölgun í bænum er áberandi minni en í sveitarfélögunum kringum okkur og er það mikið áhyggjuefni.

Núverandi meirihluti Sjálfstæðis­flokks og Framsóknarflokks hefur viljað skella skuldinni á rafmagns­línurnar sem liggja yfir nýju hverfi sem kallast Hamranes. Það skýrir ekki nema hluta vandans. Skarðshlíðin (núverandi byggingasvæði) er ekki við þessar línur nema að litlu leyti. Skarðshlíð 1 er að fullu úthlutað en í Skarðshlíð 2 og 3 eru um 95 lausar lóðir og salan dræm. Í Skarðshlíð 3 er t.a.m. búið að selja 6 lóðir af 50.

Á fundi með stjórn Meistarafélags iðnaðarmanna í bænum kom fram að íþyngjandi byggingaskilmálar og verð lóða spili hér stórt hlutverk sem hleypir upp byggingakostnaði, dregur úr sam­keppnihæfni og sé hindrun í eðlilegri uppbyggingu. Nokkuð hefur verið dregið úr þessum íþyngjandi skipu­lagsskilmálum en ganga þarf lengra að mati þeirra.

Þessu verður að snúa við og það hlýtur að vera hlutverk kjörinna fulltrúa að vinna saman að því að móta þann jarðveg sem þarf til að hús­næðis­upp­bygging geti verið blómleg og í takti við það sem gerist í kringum okkur.

Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjar­full­trúi Miðflokksins
Gísli Svein­bergs­son, situr í skipulags- og byggingaráði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here