fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirPólitíkHafnarfjörður - Áfram í fremstu röð

Hafnarfjörður – Áfram í fremstu röð

Þórður Heimir Sveinsson skrifar

Í nokkur ár hefur blundað í mér mikill áhugi á málefnum bæjarins og ekki síst skyldan til að láta gott af mér leiða og gefa til baka allt það ánægjulega sem Hafnarfjörður hefur gefið okkur fjölskyldunni í gegnum árin. Hafnarfjörður er í fremstu röð sveitarfélaga og ég vil leggja mitt af mörkum til að tryggja að svo verði áfram.

Áherslur Sjálfstæðisflokks­ins eru skýrar og settar fram með velferð og lífsgæði íbúa á öllum aldri í huga, og að þeim vil ég vinna áfram með samheldnum hópi flokks­manna minna. Heilmargt hefur áunnist undir stjórn Sjálfstæðisflokksins sem fylgja þarf eftir en jafnframt eru ærin verkefni framundan sem við þurfum að takast á við. Framboð á fasteignum er eitt þeirra stóru verkefna sem brýnast er að vinna að. Hafnarfjörður verður að vera í stakk búinn til að halda í sem og laða að nýja íbúa. Skipulagsmál og uppbygging eru því lykilatriði til að svo megi verða. Að sama skapi þarf að vera til staðar skilvirk og fjölbreytt þjónusta við alla aldurshópa þar sem stuðla þarf að sem bestu lífsgæðum. Faglegt skólastarf á öllum stigum, samræming skóla og frí­stundastarfs, öflugt íþrótta- og æskulýðs­starf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri til iðkunar, forvarnir og heilsuefling og svo mætti lengi telja. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri farsælu braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á enda er ábyrgur rekstur forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og góða þjónustu til að mæta ólíkum þörf­um fólks.

Bæjarbragurinn sem hér hefur myndast fyllir mig ómældu stolti og krafti til að vilja vera þátttakandi í að styðja við og efla áfram. Hér státum við okkur af fjölbreyttu atvinnulífi, skemmtilegum versl­unum, frábærum þjónustuaðilum, kaffi- og veitingastöðum og framúr­skarandi fjölbreyttu lista og menningarlífi sem allt laðar til sín. Ekki má gleyma þeim lífsgæðum sem fólgin eru í nálægð­inni við náttúruna í okkar nærumhverfi, sjávarsíðan ásamt fjölbreyttum útivistar­svæðum og náttúruperlum sem eru hér allt um kring.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér og vinna af krafti, dugnaði, sannfæringu og heilindum fyrir alla Hafnfirðinga og hinn glæsilega bæ, Hafnarfjörð, sem ég er stoltur af að kalla heimili mitt.

Ég leita eftir stuðningi þínum í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði 3.-5. mars n.k.

Þórður Heimir Sveinsson, lögmaður.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2