fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirPólitíkFyrir Hafnarfjörð

Fyrir Hafnarfjörð

Lýðræðið og frelsið er okkur dýrmætt. Því eru kosningar þar sem allir geta haft áhrif á samfélag sitt mikilvægar. Á vormánuðum ganga íbúar til kosninga og kjósa þann flokk sem þeir treysta til að leiða bæjarfélagið sitt næstu fjögur árin. Stefna flokkana vegur að sjálfsögðu þungt þegar kemur að valinu en ekki síður það fólk sem skipar listann. Bæjarfulltrúar sem að lokum skipa lista þeirra flokka sem stýra bæjarfélaginu eru einstaklingar sem í grunninn vinna fyrir samfélagið og eru í nánum tengslum við íbúa og fyrirtæki. Í það starf þarf einstakling sem nýtur trausts, hlustar og getur leitt saman ólíkar skoðanir og sjónarmið.

Það skiptir máli hver stjórnar

Á undanförnum árum hefur Hafnar­fjörður blómstrað og fjárhagsleg staða sveitarfélagsins batnað við erfiðar aðstæður. Byggingarkranar sjást víða um bæinn, ný hverfi að rísa og atvinnulóðir seljast sem aldrei fyrr. Fyrirtækjum fjölgar og leikhús, tón­leikahús, veitingastaðir og kaffihús hafa opnað dyr sínar og bíða eftir taka á móti gestum sínum að nýju. Leikskólar bæjarins standa frammi fyrir allt annarri stöðu en áður var og mun betri en í öðrum sveitarfélögum og því verður hægt að innrita yngri börn en áður. Álögur á íbúa hafa lækkað, sérstaklega hjá barnafjölskyldum. Allt þetta gerðist ekki að sjálfu sér, það skiptir því máli hver stjórnar.

Ykkar stuðningur skiptir máli

Ég sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og heiti því að vinna að heilindum fyrir Hafnarfjörð þar sem ég nýti tíma minn, menntun og reynslu sem bæjarfulltrúi, formann fræðsluráðs og hafnarstjórnar til góðra verka fyrir Hafnarfjörð. Ég treysti því að þeir Hafnfirðingar sem kjósa að taka þátt í prófkjörum hafi það í huga að þeir eru að ráða til sín einstakling sem þeir vilja að vinni fyrir þá næstu fjögur árin. Ég sækist eftir ykkar stuðningi í forystusæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 3.-5. mars næstkomandi.

Kristín María Thoroddsen, bæjarfulltrúi,
og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2