Fjölskyldan í fyrirrúmi

Hilmar Ingimundarson

Hafnarfjörður er einstaklega vel í sveit settur frá náttúrunnar hendi. Í bæn­um hefur byggst upp gjöfult og gott samfélag og sem betur fer eru vissulega fjölmargir mögu­leikar á því að gera gott mannlíf enn betra. Á næsta kjörtímabili vil ég sjá Sjálf­stæðisflokkinn enn við stjórnvölinn í Hafnarfirði með sterkan og samstilltan meiri­hluta. Grunngildi flokksins hafa ávallt höfðað mjög til mín og á þeim grunni hef ég áhuga á að taka þátt í að byggja upp okkar ágæta bæjarsamfélag og skapa betri Hafnarfjörð fyrir okkur öll.

Mikilvægt er að leggja hagsmuni fjöl­skyldunnar ávallt til grundvallar, þegar ákvarðanir eru teknar um uppbyggingu bæjarsamfélagsins. Ákvarðanir bæjar­stjórnar þurfa á öllum sviðum að grund­vallast á því, að fjölskyldunni sé gert kleift að dafna og þroskast við bestu skil­yrði, hvort sem er andlega, líkamlega eða félagslega. Æskilegt væri að Hafnar­fjarðarbær stæði fyrir og skipulegði með reglubundnum hætti fræðslunámskeið, sem efldi skilning á eðli og hlutverki fjöl­skyldunnar á mismunandi ævi­skeið­um. Bjóða þarf upp á fjölskylduráðgjöf í samvinnu við Heilsugæslu Hafnarfjarðar og vinna ber áfram að eflingu heimilis­hjálpar og heimahjúkrunar í samvinnu við Heilsugæslu Hafnarfjarðar með það að markmiði að auðvelda fólki að dvelja á eigin heimili.

Grunnþáttur í góðu bæjar­félagi er öflugt og skilvirkt skóla­­starf – á öllum skólastigum. Mikilvægt er að halda áfram að forgangsraða í þágu menntunar til þess að tryggja að Hafnar­fjörður sé ávallt í fremstu röð. Í boði þarf að vera heildstæð þjónusta við börn frá eins árs aldri. Leggja þarf áherslu á að­lað­andi vinnuumhverfi fyrir nemendur og starfsmenn skóla og leggja ber áherslu á að laða enn sem fyrr metnaðarfullt fagfólk til starfa á öllum skólastigum. Við þurfum að vinna markvisst að þróun skólastarfs og stuðla að aukinni endur- og símenntun kennara. Efla þarf sérfræði­þjón­ustu skólanna og bjóða þarf enn frek­ar upp á skipulögð úrræði fyrir unglinga, sem flosna upp frá námi. Þannig skapast fullnægjandi skil­yrði og öryggi fyrir vel­líðan barna og foreldra til þess að sinna námi og vinnu til hagsbóta fyrir fjöl­skylduna og samfélagið allt.
Setjum hagsmuni fjölskyldunnar í önd­vegi.

Hilmar Ingimundarson,
býður sig fram í 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor.

Ummæli

Ummæli