Fjölgun úrræða fyrir heilabilaða hafnað

Sigurður Þ. Ragnarsson skrifar

Sigurður Þ. Ragnarsson

Fyrir skömmu barst svar frá heilbrigðisráðherra til Hafnarfjarðarbæjar vegna beiðni um fjölgun dagdvalarrýma í bænum fyrir fólk með heilabilun. Skemmst er frá því að segja að ráðherra hafnaði erindinu.

Þverpólitísk sátt náðist í fjölskylduráði um að óska eftir aukningu um 10-12 rými. Var á haustdögum skipaður vinnuhópur sem hafði það að markmiði að finna húsnæði en 30 einstaklingar eru á biðlista eftir dagdvalarrými fyrir heilabilaða, þar af 26 í forgangi 1. Niðurstaða starfshópsins var að hentugasta húsnæðið væri Drafnarhúsið. Þar er fyrir dagdvalareining með leyfi fyrir 22 heilsdagspláss sem um 26 einstaklingar eru skráðir í á aldrinum 60-90 ára. Reksturinn er í höndum Alzheimersamtakanna. Meðaltími á biðlista er um 12 mánuðir . Hugmyndin var að þessi aukning yrði aðskilin frá núverandi einingu en eins og fyrr segir, í sama húsi.

Með því að finna hentugt húsnæði var gengið lengra en sveitarfélaginu er skylt. Þörfin er jú afar brýn og verðum við að hafa í huga að heilabilun varðar miklu fleiri en aðeins þann sem haldinn er sjúkdómnum.

Niðurstaða ráðherra er algjörlega óásættanleg þegar fyrir liggur hversu þörfin er brýn. Aðstandendur sjúklinga með heilabilun  og sjúklingarnir sjálfir geta ekki beðið lengur. Þennan vanda verður að leysa með öllum tiltækum ráðum og að því mun Miðflokkurinn vinna.

Sigurður Þ. Ragnarsson
bæjarfulltrúi Miðflokksins og situr í fjölskylduráði.

Greinini birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga, 31. janúar 2019.