Félagslegt hús­næði í Hafnarfirði

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Friðþjófur Helgi Karlsson

Í lok janúar skrifaði Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar og óháðra grein í Fjarðarfréttir um fjölgun á félagslegu húsnæði hér í Hafnarfirði. Við Ágúst Bjarni erum sammála því að fjölgun félagslegs húsnæðis er eitt af brýnustu verkefnunum hér í Hafnarfirði nú um stundir. Gríðarleg þörf hefur myndast á síðustu árum og henni þarf að mæta eins hratt og mögu­legt er.

Veigamiklum þætti viljandi sleppt

Það er rétt að fjölgun félagslegs húsnæðis hér í bæ var hæg á árunum 2009-2016. En hver skyldi meginástæða þess hafa verið? Ástæða sem Ágúst Bjarni velur að sleppa í umfjöllun sinni. Yfir íslenskt samfélag reið fordæmalaus efnahagskreppa. Hafnarfjörður eins og flest önnur sveitarfélög lenti í fjárhags­legum erfiðleikum. Meirihluti Sam­fylkingarinnar og Vinstri grænna sem sat við völd á árunum 2010-2104 hefði svo sannarlega viljað fara í ríka og veg­lega uppbyggingu á félagslegu húsnæði ef hann hefði verið í færum til þess. Í veg fyrir það kom fjár­hagsstaða bæjarfélagsins sem var tilkomin vegna hrunsins.

Meirihlutinn mótfallinn hraðari uppbyggingu

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjar­stjórn fram tillögu um að setja meira fé í kaup á félagslegu húsnæði í bæjar­félaginu. Það er skemmst frá því að segja að fulltrúi Framsóknar og óháðra, Ágúst Bjarni, hafnaði þeirri tillögu ásamt félögum sínum í meiri­hlutanum. Með samþykki tillögunnar hefði verið hægt að fara í hraðari uppbyggingu á félagslegu húsnæði og mæta enn fleiri fjölskyldum sem marg­ar hverjar eru í brýnni þörf og biðlistar hafa aldrei verið lengri.

Það var vond pólitísk ákvörðun hjá meirihlutanum að hafna þessari tillögu.

Friðþjófur Helgi Karlsson bæjarfulltrúi.