Fimmtudagur, ágúst 28, 2025
HeimUmræðanAukin fjölbreytni fyrir hafnfirsk ungmenni

Aukin fjölbreytni fyrir hafnfirsk ungmenni

Kristín Thoroddsen skrifar

Haustið er runnið upp, sólin lækkar á lofti og lífið færist í fastari skorður. Með skólasetningu hefst nýr kafli í lífi um 4.500 hafnfirskra grunnskólanemenda sem nú stíga aftur inn í kennslustofurnar eftir sumarið. Þar bíða þeirra bæði nýjar áskoranir og ótal tækifæri. Til að mæta þessum fjölbreytta hópi barna og ungmenna þarf að tryggja að fjölbreytni í námi, íþróttum og tómstundum.

Hafnarfjörður státar af einhverju fjölbreyttasta úrvali íþróttagreina á landinu. Frístundastyrkur bæjarins hefur notið mikilla vinsælda og í haust stendur hann einnig 5 ára börnum til boða, bæði fyrir íþróttir og skapandi tómstundir. Ný íþróttafélög hafa sprottið upp og mannvirkjum fjölgar jafnt og þétt. Nýjasta dæmið er áform um íþrótta- og tómstundasvæði í Hamranesi þar sem áhersla verður lögð á að skapa vettvang fyrir ólíkar greinar og afþreyingu. Bæjarbúum er boðið að hafa áhrif á skipulagið með þátttöku í könnun á heimasíðu bæjarins, enda skiptir rödd samfélagsins öllu máli.

Nýsköpun og skapandi starf í forgrunni

Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur kallað eftir meira skapandi frístundastarfi og fjölbreyttari valgreinum. Í Menntasetrinu við Lækinn hefur verið opnuð Nýsköpunarmiðstöð með tilrauna- og tæknismiðjum fyrir alla aldurshópa. Í sama húsi er nú einnig að finna Miðstöð ungs fólks, þar sem boðið er upp á fjölbreytt tómstundastarf, félagsaðstöðu og aðgang að list- og nýsköpunarverkefnum.

Tónlist, myndlist og leiklist munu njóta aukins vægis í Menntasetrinu en unnið er að nýrri aðstöðu til tónlistariðkunar þar sem ungmenni geta skapað, hljóðritað og æft sig undir leiðsögn fagfólks. Þá hefur verið gengið til samstarfs við Gaflaraleikhúsið um leiklistarval og kennslu fyrir börn og ungmenni bæjarins. Gamla skólahúsið við Lækinn, sem áður hýsti Lækjarskóla, hefur þannig fengið nýtt hlutverk sem lífandi miðstöð fyrir ungt fólk.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Haustið 2024 hófu Hafnarfjarðarbær og heilsubærinn Hafnarfjörður fundaröðina Við erum þorpið um málefni barna og ungmenna, líðan þeirra og öryggi. Lögð verður áhersla á að fjölga fræðsluerindum á nýju skólaári og efla enn frekar samstarf heimilis og skóla. Við í Hafnarfirði erum svo lánsöm að hafa mjög öflugt foreldraráð sem hefur unnið mikilvægt starf í þágu barna, meðal annars í samstarfi við fræðsluyfirvöld um símafrí í grunnskólum bæjarins og fleiri mikilvæg málefni. Samvinna heimilis og skóla skiptir sköpum fyrir farsæla skólagöngu, jákvætt umtal og áhugi foreldra á skólastarfi barna sinna er lykill að velgengni þeirra og má því segja að farsæld barna sé á ábyrgð okkar allra.

Í menntastefnu Hafnarfjarðar, sem tekin verður upp á næstu mánuðum, er lögð áhersla á fjölbreytileika, sköpun, vellíðan og samvinnu. Stefnan styður við það að hver skóli geti þróað sín einkenni en um leið verið hluti af sameiginlegri framtíðarsýn sem við erum stolt af. Menntastefnan sem nú liggur fyrir verður innleidd á næstkomandi önn og vonum við að börn, starfsfólk og foreldrar taki virkan þátt í innleiðingu hennar með jákvæðni og gleði.

Þorpið okkar hefur iðað af lífi í sumar og ég trúi því að sú gleði muni fylgja okkur inn í skólastofurnar í haust. Með samhentu átaki, kærleika og trú á getu hvers og eins getum við gert gott skólastarf enn betra og verið það þorp sem hvert barn á rétt á að alast upp í.

Kristín Thoroddsen
formaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2