Ég myndi telja það góðan vitnisburð um bæinn og mikla trú á samfélaginu okkar hér í Hafnarfirði hversu mörg stór og kraftmikil fyrirtæki og opinberar stofnanir hafa séð sér hag í því að byggja upp starfsemi sína til framtíðar í bæjarfélaginu. Þar getum við nefnt Icelandair sem nú vinnur að því að flytja alla sína starfsemi til bæjarins, tilkomu höfuðstöðva Isavia og nýundirritaða viljayfirlýsingu um byggingu Tækniskólans hér á Suðurhöfninni. Auk þessa má nefna Hafrannsóknarstofnun sem hingað flutti starfsemi sína árið 2020.
Dreifing er samgöngubót og meira til
Ég hef ætíð sagt að með skynsamlegri dreifingu opinberra stofnana og stórra fyrirtækja um höfuðborgarsvæðið, sé hægt að ná einhverri stærstu samgöngubót sem íbúar þessa svæðis geta fengið. Það ætti öllum að vera ljóst að ekkert vit er í því, sama með hvaða gleraugum á það er litið, að keyra stóran hluta íbúa höfuðborgarsvæðisins á sama stað að morgni og aftur til baka seinni part dags. Svo ekki sé talað um hvað slíkir vinnustaðir gera fyrir samfélög eins og Hafnarfjörð; hvaða dómínóáhrif þau hafa á fólk, verslun og þjónustu með allri þeirri fjölgun sem af þessu hlýst. Aukið líf og heilt yfir almennt meiri lífsgæði öllum til handa. Ég er ánægður með þessa þróun hér í bæ og veit að þetta verður áfram verkefni okkar sem í stjórnmálum eru á komandi árum.
Hafnarfjörður stækkar
Lyft hefur verið grettistaki í uppbyggingu íbúða hér í Hafnarfirði á yfirstandandi kjörtímabili og má þar helst nefna Skarðshlíð sem er uppseld, hundruð íbúða í Hamranesi, þar sem uppbygging er nú þegar hafin, Hraun vestur – Gjótur, Hjallabraut, Hrauntungu og Flensborgarhöfn svo einhver dæmi séu tekin. Þessu til viðbótar gengur skipulagsvinna við Ásland 4 vel, en þar er gert ráð fyrir um 480 íbúðum, mestmegnis sérbýli í bland við lítil fjölbýli. Það er því bjart framundan hér í Hafnarfirði og íbúum mun fjölga svo um munar á næstu mánuðum og árum, annars vegar á svæðum sem eru að taka rökréttum eðlilegum breytingum í takt við tímann, og hins vegar á nýbyggingarsvæðum sem loks hafa opnast eftir að línur voru færðar. Allt er þetta í samræmi við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins sem er sameiginleg stefna sveitarfélaganna um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins til næstu 25 ára.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.
Greinin birtist í Fjarðarfréttum 3. tbl. 19. árg. – 31. ágúst 2021.