Skautasvellið sem heyrir sögunni til

Hér var á árum áður hið besta skautasvell

Stundum þarf ekki mikið til að fólk geti stundað útivist eða íþróttir. Ekki þarf alltaf að byggja milljarða kr. hallir svo hægt sé að stunda holla og góða útivist en þá verður fólk líka að treysta á veðrið.

Margir muna eftir skautasvellinu sem var á Hörðuvöllum en Hörðuvellir voru á sínum tíma mikill hátíðar- og viðburðastaður. Þar var keppt í frjálsum íþróttum, þar safnaðist fólk saman á 17. júní og á vetrum var vatni hleypt yfir varnargarðinn og vetur konungur sá til þess að þarna var oft á tíðum hið ágætasta skautasvell. Ekki var miklu kostað til, einhvern tíiman var settur upp einn kastari sem lýsti út á svellið og slökkvilið kom stundum og dældi vatni yfir til að fá slétt og gott skautasvell.

Frosinn pollur á Hörðuvöllum er ekki sama og gott skautasvell.

Meðfylgjandi mynd frá Hörðuvöllum sýnir frosinn poll þar sem áður var skautasvell en svæðinu hefur verið breytt mikið og það hækkað svo ekki verður þar skautasvell sem fyrr.

Staðurinn var mjög hentugur, þarna var skjólsælt og vatnið kyrrt og grunnt svo það fraus hratt.

Hvort það er hækkandi hiti eða aukið heitt afrennsli í Lækinn eða jafnvel hvoru tveggja, er ekki tekin afstaða til þess hér en auðvitað mætti oft hugsa til ódýrra lausna til að gera útivist skemmtilegri og tilbreytingarríkari.

Blaðamaður steig sín fyrstu spor á skíðum í brekkunni frá kartöflugarðinum á Óla Runs túni og síðan var farið í Garðahreppinn og rennt sér niður brekkurnar við Setbergsbæinn. Margir nýttu líka brekkurnar við Jófríðarstaði en nú virðist hvergi vera tækifæri á að renna sér, a.m.k. ekki niður langar brekkur. Reykvíkingar hafa sett upp glæsilega aðstöðu ofan Seljahverfis þar sem finna má skíðalyftu og þar er oft margt um manninn.

Hvar er skíðabrekka og toglyfta á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar eða ódýr lausn fyrir skautafólk?