Ratleikur Hafnarfjarðar er hafinn. Frítt ratleikskort og leikur fyrir alla í allt sumar!

Leikurinn er nú haldin í 22. sinn og geymir 27 ratleiksmerki víðs vegar um uppland Hafnarfjarðar.

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú hafinn í 22. sinn.

Þema leiksins í ár er „jarðmyndanir“. Fjölmargt hefur áhrif á útlit landsins og áhrifavaldarnir geta verið eldgos, jarðhræringar, veður og vatn en leikurinn leiðir að ýmsum áhugaverðum stöðum.

Markmið leiksins að leiða þátttakendur vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar og njóta útivistar og náttúrunnar.

Útsýni frá Fjallinu eina

Vandað frítt ratleikskort

Þátttakendur fá frítt vandað ratleikskort og leita að 27 ratleiksmerkjum sem staðsett eru víðs vegar um uppland bæjarins. Sum merkjanna eru stutt frá bænum, t.d. við Hvaleyrarvatn og Stórhöfða en önnur eru lengra, í Helgadal, á Helgafelli, í Litlu-borgum, í Sauðabrekkugjá, Fjallgjá, Réttarklettum, Óttastaðaseli og víðar og sum jafnvel rétt út fyrir bæjarmörkin eins og á Fjallinu eina og hinu merkilega fyrirbrigði Urðarás.

Leikurinn stendur frá byrjun júní og síðasti skilafrestur á úrlausnum er 23. september en allir sem skila 9, 18 eða 27 lausnum geta orðið Léttafeti, Göngugarpur eða Þrautakóngur og allir sem mæta á uppskeruhátíðina og hafa skilað inn lausnum geta fengið útdráttarvinninga.

Við Réttarkletta við ströndina, vestast í Hafnarfirði

Styrktaraðilar

Fjölmörg fyrirtæki gefa vinninga, Altis, Ban Kúnn, Burger-inn, Fjallakofinn, Fjörukráin, Hafnarfjarðarbær, Hafnarfjarðarhöfn, Músik og sport, Origo og Von.

Aðalstyrktaraðili leiksins fyrir utan Hafnarfjarðarbæ er VHE en aðrir sem styrkja leikinn eru Fjarðarkaup, Gámaþjónustan, Gróðrartöðin Þöll og Landsnet.

Guðni Gíslason leggur leikinn í 12. sinn en það er Hönnunarhúsið ehf. sem gefur út leikinn í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Ómar Smári Ármannsson aðstoðaði sem fyrr við val á ratleiksstöðum og ritaði fróðleiksmola en hann er manna kunnugastur á Reykjanesskaganum og heldur úti fróðleikssíðunni, ferlir.is

Urðarás í Almenningi

Allir geta tekið þátt

Mikill áhugi er fyrir leiknum og beðið eftir útgáfu kortanna á hverju ári. Í ár var engin undantekning enda ómuna veðurblíða og kjörnar aðstæður til göngu í upplandi bæjarins.

Þar sem langur tími er gefinn í leikinn getur hver og einn farið hann á sínum hraða. Þetta er tilvalinn fjölskylduleikur og fólk lærir að meta það sem umhverfi okkar hefur upp á að bjóða.

..en hefur þú komið í Litlu borgir?

„..en hefur þú komið í Litlu borgir?“ er algeng spurning hjá Guðna, umsjónarmanni leiksins þegar fólk segir honum frá heimsókn sinni á einhvern merkisstað úti í heimi. Oftast er svarið nei þó aðeins þurfi að fara rétt upp fyrir Helgafell til að finna Litlu borgir.

Guðni Gíslason

Í leiknum má búast við að rekast á ummerki um mannvistir fyrri alda úti hrauni, hella, jarðsig, fjölbreyttar jarðmyndanir, gróður enda uppland Hafnarfjarðar og nágrenni gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt.

Guðni hvetur alla til að nálgast kort á meðan þau eru til og byrja að leita. Kortin fást frítt m.a. í Fjarðarkaupum, í ráðhúsinu, Bókasafninu, sundstöðum, íþróttahúsum, í Músik og sport, Altis, bensínstöðvum og víðar.

Nánar má sjá um leikin á ratleikur.blog.is og á www.facebook.com/ratleikur

Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum úr leiknum og merkja #ratleikur2019

Ummæli

Ummæli