Fimmtán þúsund manns á Helgafellssvæðinu á 90 dögum

Talningarstaurinn skammt frá Lambagjá og steinninn með öllum óskilamununum

Vinsældir Helgafellssvæðisins hefur stóraukist á síðustu árum en um síðustu aldamót var ekki margt fólk á ferðinni þar.

Nú er þar nánast stöðugur straumur af fólki og nýir gönguslóðar hafa myndast. Það er ekki aðeins Helgafellið sem dregur að heldur líka Valahnúkarnir og Valaból, hellarnir í Helgadal og Undirhlíðarnar með Kýrskarðinu, Skólalundinum og fleiri fallegum stöðum.

Settur hefur verið upp talningarstaur á gönguslóðann þar sem gengið er niður í Lambagjána, skammt frá nýju bílastæðunum. Frá 11. maí sl. til 7. ágúst fóru þar 15.635 einstaklingar um sem gerir að meðaltali um 5 þúsund manns á mánuði og 176 að meðaltali á hverjum degi.

Fjöldi gesta á svæðinu frá 11. maí til 7. ágúst 2020

Fjölmennasti dagurinn var laugardagurinn 16. maí en þá voru taldir 456 einstaklingar sem þarna fóru um. Þegar rólegast var fóru aðeins 20 manns framhjá talningarstaurnum en það var föstudaginn 12. júní.

Það er því ekki undarlegt að erfitt er að fá bílastæði á svæðinu en nýju bílastæðin urði nær strax allt of lítil og nú er verið að undirbúa stækkun á þeim.

Horft af toppi Helgafells niður í Kaldárbotna. Hafnarfjörður í fjarska

Lítið sem ekkert hefur verið gert á svæðinu fyrir utan nýja bílastæðið og endurbættan stíg að Kaldárbotnum. Þó setti Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar upp glæsilega útsýnisskífu á Helgafelli í sumar. Nánast allir stígar eru myndaðir af göngufólki, sáralítið er um merkingar og ræfilslegur krani er eini vatnspósturinn við þetta magnaða vatnsból Hafnfirðinga. Tækifærin eru óendanleg þarna og vonandi eykst áhugi ráðamanna á upplandi Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli