Lífshlaupið var formlega sett í Skarðshlíðarskóla

Nemendur Skarðshlíðarskóla hlaupa míluna alla skóladaga

Frá setningu Lífshlaupsins í Skarðshlíðarskóla. Ljósmynd: pix.is

Mikil gleði ríkti í Skarðshlíðarskóla sl. miðvikudagsmorgun þegar Lífshlaupið var ræst í þrettánda sinn.

Ingibjörg Magnúsdóttir skólastjóri bauð gesti velkomna. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Þráinn Hafsteinsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ ávörpuðu svo gesti áður en þau kepptu í skemmtilegum þrautum sem Ana og Viktor, íþróttakennarar skólans, stýrðu af mikilli snilld.

Blossi, lukkudýr ÍSÍ mætti á svæðið öllum til mikillar ánægju. Að dagskrá lokinni drifu nemendur og kennarar sig út og hlupu míluna sína.

Skarðshlíðarskóli hefur frá haustinu 2018 farið út og hlaupið, gegnið eða skokkað daglega eina mílu. Skarðshlíðarskóli var fyrsti skólinn á Íslandi til að taka þátt í þessu alþjóðlega verkefni og óhætt er að segja að mikil ánægja er með þátttökuna. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur skóla landsins til að taka upp þetta verkefni enda þykir það afar einfalt í framkvæmd. Tilvalið er að skrá hreyfinguna í Lífshlaupið.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna með það að markmiði að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta. Lífshlaupið er góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig eða eru nú þegar að hreyfa sig reglulega og vilja skrá hreyfinguna markvisst, hafa yfirsýn og setja sér markmið. Auk þess að hvetja til hreyfingar daglega þá skapar verkefnið skemmtilega stemningu á vinnustöðum og í skólum sem keppa sína á milli og innanhúss.