fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimKynningValdeflandi vettvangur fyrir ungt hafnfirskt listafólk

Valdeflandi vettvangur fyrir ungt hafnfirskt listafólk

Skapandi sumarstörf Hafnarfjarðarbæjar eru stökkpallur fyrir framtíðina

Síðan 2021 hefur Hafnarfjarðarbær starfrækt Skapandi sumarstörf í annarri mynd en áður var. Nú sækir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára, eitt eða í hóp, um þátttöku með ákveðna hugmynd eða verkefni í huga. Hefur þessi nýja nálgun verið í þróun síðustu tvö ár og gefist einstaklega vel.

Við val á verkefnum er horft til ýmissa þátta eins og gæði umsóknar, tengingar við Hafnarfjörð og fjölbreytileika listforma. Klara Elíasdóttir er verk­efnastjóri Skapandi sumarstarfa og hefur verið síðustu tvö árin. Margrét Gauja Magnúsdóttir deildarstjóri ung­menna­húsa Hafnarfjarðar kemur að vali verk­efna og hýsingu þeirra yfir sumartímann.

Frá fyrsta sameiginlega fundi starfsmanna í Skapandi sumarstörfum 2022.

Snýst um að öflugt ungt lista fólk finni sína rödd og sína leið

„Ellefu einstaklingar fá ráðningu og tækifæri til að láta ljós sitt skína með framkvæmd á eigin hugmynd og verk­efni. Hópurinn fylgir hugmynd sinni eftir í átta vikur, er á launum hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar og með að­setur í Ung­mennahúsinu Hamrinum. Öll verkefnin hingað til hafa raungerst og verið bæjar­búum til sóma,“ segir Margrét Gauja. Verkefnin hafa hlotið viður­kenningar og tilnefningar meðal annars til Eddu­verðlaunanna og unnið Íslensku tónlistar­verðlaunin og Jólasögu Borgar­bóka­safnsins. Framhaldsskólar hafa sett upp leiksýningar byggðar á leikritum sem samin hafa verið hjá Skapandi sumar­störfum og hafa menningarhús og stofnanir bæjarins; Bæjarbíó, Hafnarborg og Bókasafn Hafnarfjarðar fengið að njóta hæfileika þessa unga fólks.

„Þessi tækifæri til sköpunar og mótunar á list sinni hafa gert listafólkinu kleift að sækja um listaskóla erlendis, til kynninga á verkefnum sem opnar á annað samstarf og samlegð milli verkefna. Skapandi sumarstörf eru valdeflandi vettvangur fyrir ungt fólk til að finna rödd sína innan sköpunar og koma henni á framfæri undir dyggri handleiðslu Klöru Ósk Elíasdóttur“.

Heklisgerði, hugarheimur ungs flóttafólks og fjöllist um huldufólk

Skapandi sumarstörf sumarið 2023 lofa góðu. Hellisgerði verður 100 ára í ár og í tilefni þess verður ung handverkskona með prjóna graffití og breytir garðinum í Heklisgerði. Ný tónlist verður samin, gefin út og flutt um allan bæ í allt sumar. Blað tileinkað ungu fólki verður gefið út, gerð stuttmynd um hugarheim ungs flóttafólks og þversnið af íbúum bæjarins gerð skil á sérstökum vef. Önnur spenn­andi verkefni snúa að fjöllist um huldu­fólk bæjarins, málun myndlista­verka og dansverkum gerð skil með ljósmyndun.

Hafnarfjörður mun iða af sköpun í sumar, af verkum og verkefnum sem mun skila sér svo margfalt til bæjarbúa, en síðast en ekki síst, til unga listafólksins okkar til framtíðar litið.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2