Taekwondosamband Íslands TKÍ hefur valið íþróttafólk ársins 2021. Bæði koma þau úr Fimleikafélaginu Björk, þau Leo Anthony Speight og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir.
Leo Anthony Speight hefur um árabil verið okkar öflugasti bardagamaður. Hann keppir í -68 kg senior sem er einn erfiðasti flokkur sem hægt er að keppa í. Leo hefur unnið allt sem hægt er að vinna á Íslandi og er margfaldur Íslandsmeistari og Norðurlandameistari. Hann hefur einnig unnið til margra verðlauna á alþjóðlegum mótum. Leo er glæsileg fyrirmynd annarra með miklum aga við æfingar og íþróttamannslega hegðun og er hann sagður til fyrirmyndar á öllum sviðum.
Árið 2021 hefur verið viðburðaríkt hjá Leo Anthony Speight eftir að keppnir byrjuðu aftur erlendis. Hann hefur sótt fjölda móta og æfinga erlendis og bætingin verið heilmikil. Leo hefur verið að keppa á G-mótum sem eru sterkustu alþjóðlegu mótin og núna í haust fór hann á 5 mót. Það hefur verið mikill stígandi í árangri og nú undir lok ársins komst hann á pall á Breska meistaramótinu í geysi öflugum -68 senior flokki. Við hlökkum til með að fylgjast með áframhaldinu.
Afrek á árinu:
- Brons á breska meistarmótinu, 1 Senior A -68 kg í bardaga
- 17. sæti á opna franska Senior A -68 kg í bardaga
Ingibjörg Erla Grétarsdóttir keppir nú í -57 senior og hefur verið í algjörum sérflokki. Má þar meðal annars nefna silfur á Serbian open, gríðarlega sterku mói. Hún er einnig margfaldur Íslands- og Norðulandameistari og glæsileg fyrirmynd allra sem koma að Taekwondo á Íslandi. Árið 2021 hefur verið viðburðaríkt hjá Ingibjörgu eftir að keppni hófst á ný erlendis. Hún hefur sótt fjölda móta og æfinga erlendis og bætingin verið heilmikil og árangurinn eftir því. Ingibjörg hefur verið að keppa á G-mótum sem eru sterkustu alþjóðlegu mótin og hefur núna í haust keppt á 5 slíkum. Það hefur verið mikill stígandi í árangri og tókst henni meðal annars að vinna konu frá Morokó sem er númer 12 á heimslistanum en er komin í 7. sætið núna þegar þetta er skrifað og er það sennilega einn stærsti sigur sem kvenkeppandi frá Íslandi hefur náð.
Afrek á árinu:
- 5. sæti Montenegro Open (sigraði keppanda númer 12/7 á heimslistanum)
- 8. sæti Albania Open
- 17. sæti French Open