Nói setti glæsilegt Íslandsmet og konurnar í Hróa Hetti hömpuðu Íslandsmeistaratitlum

Eowyn Marie Mamalias Íslandsmeistari í keppni með trissuboga

Íslandsmeistaramótið í bogfimi innanhúss var haldið um liðna helgi í Bogfimisetrinu í Reykjavík.

Dagur Örn Fannarsson úr BF Boganum er Íslandsmeistari í sveigboga karla. Þetta er í fyrsta sinn sem keppandi sem er ekki á fullorðins aldri vinnur Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga karla. En Dagur er aðeins 18 ára gamall og þetta er í fyrsta sinn sem hann keppir á Íslandsmeistaramóti í opnum flokki.

Izaar Arnar Þorsteinsson úr ÍF Akri vann Íslandsmeistaratitilinn í berboga karla.

En Hafnfirðingar áttu fólk á verðlaunapalli.

Guðbjörg Reynisdóttir Íslandsmeistari með berboga

Guðbjörg Reynisdóttir í hafnfirska bogfimifélaginu Hróa Hetti varði titil sinn og hampaði Íslandsmeistaratitli kvenna í keppni með berboga.

Guðbjörg Reynisdóttir Íslandsmeistari í keppni með berboga.

Guðbjörg var efst í undankeppni og talin líklegust til sigurs á mótinu. En hún fékk harða samkeppni frá Birnu Magnúsdóttir úr BF Boganum og í lok gullkeppninnar þurfti bráðabana til að ráða úrslitum. Í bráðabana skjóta báðir keppendur einni ör og sá sem er nær miðju vinnur. Guðbjörg skaut sinni ör fyrst og fékk 7 stig, Birna lenti hins vegar í vandræðum með sína ör og náði ekki að skjóta örinni innan tímans sem gefinn er. Valgerður Hjaltested fékk svo bronsið.

Eowyn Marie Mamalias Íslandsmeistari með trissuboga

Eowyn Marie Mamalias Íslandsmeistari í keppni með trissuboga

Eowyn Marie Mamalias í BF Hróa Hetti varði Íslandsmeistaratitilinn í trissuboga kvenna innanhúss. Eowyn sat hjá í fjórðungsúrslitum og sigraði svo Erlu Marý Sigurpálsdóttir örugglega 143-137 í undanúrslitum. Eowyn lenti því á móti Ewa Ploszaj úr BF Boganum í gull úrslitum. Þar vann Eowyn nokkuð öruggan sigur 139-137.

Eowyn bætti einnig tvö af Íslandsmetunum sínum í U21 trissuboga kvenna. Hún setti Íslandsmet undankeppni U21 trissuboga kvenna með skorið 565, metið var áður 563. Þá bætti hún Íslandsmetið í útsláttarkeppni U21 trissuboga kvenna um 1 stig og fékk 143 stig. Eowyn er á síðustu árum búin að vera með yfirburði í yngri flokkum trissuboga kvenna og einnig náð góðum árangri í opnum flokki.

Sigríður Sigurðardóttir sló Íslandsmet öldunga og varð 2. í keppni með sveigboga

Sigríður Sigurðardóttir í BF Hróa Hetti varð í 2 sæti í keppni með sveigboga. Í gull úrslitum sveigboga kvenna mætti Sigríður hinni 16 ára Marín Anítu Hilmarsdóttur úr Bogfimifélaginu Boganum. Sigríður var talin sigurstranglegri fyrir leikinn og komst í 2-0. En Marín vann næstu 3 lotur og sigraði 6-2 með frábærri frammistöðu.

Sigríður sló einnig Íslandsmet í öldunga í sama flokki.

16 ára Nói Barkarson setti glæsileg Íslandsmet í keppni með trissuboga

Nói Barkarson

Hafnfirðingurinn Nói Barkarsson í BF Boganum varð Íslandsmeistari í trissuboga karla, sló Íslandsmet í undankeppni og útsláttarkeppni með gífurlega háu skori. 581 í undankeppni og 145 í útsláttarkeppni. Metin fyrir U21 trissuboga karla voru 573 og 143 og því glæsilegur árangur en Nói er aðeins 16 ára. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem ungmenni vinnur Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki trissuboga. Í opnum flokki eru metin 587 (af 600) og 146 (af 150).

Carsten Tarnow, Nói Barkarson og Alfreð Birgisson.

Nói mætti Carsten Tarnow úr ÍF Akri í gull úrslitum. Úrslitin voru gífurlega jöfn, Carsten byrjaði 2 stigum yfir en Nói hélt sínu skori stöðugu í hverri umferð. Á síðustu örinni þurfti Nói 10 stig til að vinna sem hann gerði og loka stigin því 141-140. Alfreð Birgisson fékk bronsið.

Nói vann einnig silfur í alþjóðlega hluta mótsins en þar tók Alfreð gullið.