Jón Gestur fékk æðsta heiðursmerki ÍSÍ

ÍSÍ og FRÍ heiðraði Hafnfirðinga á þingi ÍBH

Jón Gestur Viggósson og Hafsteinn Pálsson frá ÍSÍ.
Jón Gestur Viggósson

Á þingi ÍBH sem haldið var í Hásölum sl. laugardag var Jón Gestur Viggósson heiðraður með æðsta heiðursmerki ÍSÍ, heiðurskrossi ÍSÍ. Það var Hafsteinn Pálsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti honum viðurkenninguna. Hann sagði að Jón Gestur hafi verið virkur í íþróttastarfinu í Hafnarfirði um áratuga skeið og hafi lagt mörg lóð á vogarskálarnar í íþróttastarfinu. Hann væri vel að þessum heiðri kominn.

Jón Gestur lék 257 leiki með meistaraflokki FH í handknattleik. Hann hefur setið í framkvæmdastjórn ÍSÍ og gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa.

Frjálsíþróttasamband Íslands heiðraði 5 einstaklinga á þingi ÍBH

Á þingi ÍBH sem haldið var í Hásölum sl. laugardag voru fimm einstaklingar heiðraðir af Frjálsíþróttasambandi Íslands. Það var Fjóla Signý Hannesdóttir, varaformaður FRÍ sem afhenti viðurkenningarnar. Sagði hún starf frjálsíþróttadeildar FH öðrum til eftirbreytni. Þess vegna sæmdi stjórn FRÍ fimm einstaklinga heiðursmerki FRÍ í samræmi við tillögu orðunefndar.

Friðleifur Friðleifsson þakkar fyrir.

Friðleifur Friðleifsson fékk eirmerki FRÍ en hann hefur setið í langhlaupanefnd FRÍ og hefur tekið forystu í langhlaupamálum á Íslandi og stóð m.a. í brúnni þegar viðamikið Norðurlandamót í víðavangshlaupum var haldið hér á landi. Friðleifur hefur þjálfað Hlaupahóp FH undanfarin ár en hópurinn er einn stærsti hlaupahópur landsins.

Pétur Smári Sigurgeirsson.

Pétur Smári Sigurgeirsson fékk silfurmerki FRÍ en Pétur hefur þjálfað hjá Hlaupahóp FH en er einnig verið ötull og ómetanlegur liðsmaður í foreldrastarfi frjálsíþróttadeildar FH. Pétur hefur einnig verið starfsmaður á ótal mótum deildarinnar í mörg ár og sinnt óteljandi störfum.

Helgi Freyr Kristinsson fékk gullmerki FRÍ en hann hefur verið í stjórn deildarinnar frá upphafi þessarar aldar, en komið að störfum frjálsíþrótta í Hafnarfirði mun lengur. Helgi Freyr hefur haldið utan um fjárhag deildarinnar ásamt gjaldkerum. Helgi er einnig með dómararéttindi og duglegur starfsmaður á Íslands- og bikarmótum FRÍ ár hvert.

Helgi Freyr Kristinsson, Pétur Smári Sigurgeirsson, Friðleifur Friðleifsson, Sigurður Haraldsson og Fjóla Hannesdóttir varaformaður FRÍ.

Hörður Jóhann Halldórsson fékk eirmerki FRÍ. Hörður er formaður Hlaupahóps FH, en Bose hlauparöðin hjá Hlaupahóp FH hefur slegið í gegn og var hlauparöðin valin besta hlauparöðin á hlaup.is. Hörður Jóhann er mjög drífandi í öllum þessum störfum. Sigurður Haraldsson formaður deildarinnar tók við merkinu fyrir hans hönd.

Bjarki Valur Bjarnason fékk eirmerki FRÍ. Hann situr í stjórn deildarinnar, öflugur liðsmaður foreldrastarfs, vinnusamur dómari auk ýmissa starfa hvenær sem er. Sigurður Haraldsson formaður deildarinnar tók við merkinu fyrir hans hönd.

 

Ummæli

Ummæli