Ásbjörn Friðriksson er er annar tveggja leikmanna FH liðsins sem áður hafa hampað Íslandsmeistarabikarnum í handbolta, er hann skoraði 7 mörk þegar FH vann Akureyri í úrslitaleik 2011. Ásbjörn skoraði einnig 7 mörk í úrslitaleiknum í gær.
Ásbjörn, sem er uppalinn á Akureyri, gekk til liðs við FH 20 ára gamall og hefur leikið með liðinu síðan 2008 að undanskildu einu ári þegar hann lék í Svíþjóð. Hefur hann verið jafnbesti maður liðsins og dregið vagninn þegar á hefur þurft að halda.
Ásbjörn lék nokkra leiki með U20 ára landsliði Íslands en hefur aldrei verið valinn í íslenska landslið karla í handbolta.
Hinn er markmaðurinn Daníel Freyr Andrésson sem er uppalinn FH-ingur og lék með FH í nokkur ár eftir að hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum 2011 áður en hann fór í í atvinnumennsku.
Daníel Freyr varði 16 skot í úrslitaleiknum 2011 og hann var í essinu sínu í leiknum í gær og varði 15 skot.
Einar Andri Einarsson, aðstoðarþjálfari liðsins var einnig aðstoðarþjálfari 2011, Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar FH, var fyrirliði FH 2011 og Sigurður Örn Þorleifsson, varaformaður, var liðsstjóri 2011.