fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttirZontakonur þinguðu um stöðu kvenna með legslímsflakk

Zontakonur þinguðu um stöðu kvenna með legslímsflakk

Zontaklúbburinn Sunnu í Hafnarfirði er einn af sjö starfandi Zontaklúbbum á Íslandi

Zontaklúbburinn Sunna í Hafnarfirði hélt málþing þann 8. mars sl. í samvinnu við Samtök um endómetríósu eða legslímsflakk á alþjóðlegum baráttudegi kvenna: Staða kvenna með endómetríósu innan heilbrigðiskerfisins; Lífsgæði og meðferðarúrræði.

Málþingið var haldið í viku endómetríósu, 4. – 10. mars en ár hvert efna Samtök um endómetríósu til vitundarvakningar á landsvísu um sjúkdóminn. endómetríósa greinist hjá um 10% kvenna og því má telja að 176 miljónir stúlkna og kvenna um heim allan hafi sjúkdóminn. Meðalgreiningartími er langur eða allt að 7 til 10 ár og er vonast til að með umfjöllun megi stytta greiningartímann.

Fundurinn var haldinn í Hringsal Landspítalans við Hringbraut og var málþingið vel sótt en yfir 100 manns mættu og hlustuðu á fjölbreytt erindi og pallborðsumræður í lokin þar sem stjórnendur spítalans, sérfræðingar um endómetríósu, læknar og sjúkraþjálfarar ásamt konum með sjúkdóminn tóku við spurningum úr sal. Boðið var upp á léttar veitingar fyrir og eftir málþingið.

Auk málþingsins fjölluðu snapparar, bloggarar og fjölmiðlar um endómetríósu þessa viku. Áberandi byggingar á höfuðborgarsvæðinu og víða um land voru lýstar upp í gulum lit sem er bæði litur Zonta og Samtaka um endómetríósu, meðal annars Harpa, Háskóli Íslands, Hallgrímskirkja, Borgarneskirkja, Seyðisfjarðarkirkja, Safnahúsið á Ísafirði og Gróttuviti.

Fræðast má um legslímsflakk hér.

Zontaklúbburinn Sunna í Hafnarfirði

Þetta var fyrsta málþing Zontaklúbbsins Sunnu en klúbburinn er á fjórtánda starfsári sínu og einn af sjö starfandi Zontaklúbbum á Íslandi. Zonta International eru alþjóðleg samtök kvenna sem vilja stuðla að bættu samfélagi og nýta styrktarfé sitt eingöngu í verkefni í þágu kvenna. Frá stofnun Zontaklúbbsins Sunnu í Hafnarfirði árið 2003 hafa ýmis verkefni hlotið styrki, á Íslandi sem og erlendis. Meðal annars hafa ungar konur í Yemen verið styrktar til mennta og ljósmæðrum í Afghanistan verið gefinn sérútbúinn tækjakostur fyrir vinnu þeirra.

Innanlands hefur Zontaklúbburinn Sunna veitt ýmsum verkefnum lið. Þar má nefna Miðstöð foreldra og barna og Kvennaráðgjöfina sem er endurgjaldlaus lögfræðiráðgjöf fyrir konur sem þess þurfa. Einnig hafa samtökin veitt „Blátt áfram“ styrk í baráttu þeirra gegn kynferðislegri misnotkun á börnum.

Formaður Sunnu er Dagný Sigurbjörg Jónsdóttir.

Hægt er að fræðast meira um Zonta á Íslandi hér og á Facebooksíðu Sunnu

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2