Árleg vormessa í Krýsuvíkurkirkju verður haldin á morgun, sunnudaginn 21. maí kl. 14 skv. auglýsingu Hafnarfjarðarkirkju.
Sr. Aldís Rut Gísladóttir prestur í Hafnarfjarðarkirkju þjónar fyrir altari og Kári Þormar leikur á orgel og Rakel Edda Guðmundsdóttir, sópran, syngur.
Eftir messuna er boðið til kirkjukaffis í Sveinshúsi en þar er málverkasýning á verkum Sveins Björnssonar sem nefnist „Konan mín.“
Í messunni verður „Upprisa“, altaristafla Krýsuvíkurkirkju eftir Svein Björnsson, sett upp en hún á sér veturstað í Hafnarfjarðarkirkju í kirkjuskipinu
Krýsuvíkurkirkja og gamla altaristaflan
Timburkirkja á grunni torfkirkjunnar frá því á 12. öld í Krýsuvík var byggð 1857 og var hún sóknarkirkja allt fram undir 1910, en aflögð 1917. Fyrir altari var „fornfáleg altaristafla“. Kirkjuhúsið var í framhaldinu m.a. notuð til íbúðar frá 1929 uns hún var endurbyggð 1964 og endurvígð þann 31. maí það ár af biskupi landsins. Viðgerðir við kirkjuna hófust svo á ný 1986 og var kirkjan þá færð til upprunalegri gerðar. Hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju skv. upphaflegu fyrirmyndinni og komið á kirkjustaðinn þann 10. október 2020.
Ferðahópurinn FERLIR hefur löngum leitað gömlu altaristöflunnar í Krýsuvíkurkirkju dyrum og dyngjum. Skv. heimildum hafði Þjóðminjasafnið tekið „fornfálega bogadregna altaristöfluna“ í sína vörslu, en þrátt fyrir fyrirspurnir og eftirgrennslan hefur starfsfólki safnsins þagað um mögulega tilvist altaristöflunnar. Segir Ómar Smári Ármannsson, sem heldur úti fróðleikssíðunni ferlir.is að svo virðist sem geymslur safnsins séu orðnar þær stórar að yfirsýn um gripi þá, sem þar ættu að vistast, séu starfsfólkinu ofviða.
Ef einhver lesandi kann einhver skil á þessari gömlu altaristöflu (ekki er átt við Upprisu Sveins Björnssonar frá seinni tíð), er sá/sú beðin/n að hafa samband við ferlir@ferlir.is.
