fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimFréttirVilja tala við fjögur ungmenni vegna stórbrunans við Drafnarslipp

Vilja tala við fjögur ungmenni vegna stórbrunans við Drafnarslipp

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af fjórum ungmennum í tengslum við rannsókn  hennar á bruna í Drafnarslippnum í Hafnarfirði í gærkvöld.

Þau voru á ferli við Drafnarslippinn um kl. 17, en ungmennin eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000.

Eitt þeirra er talið vera með sítt, rautt hár og annað var á hjóli, en frekari vitneskja um þau liggur ekki fyrir.

Upplýsingum um ungmennin, ef einhver býr yfir þeim, má enn fremur koma á framfæri í tölvupósti á netfangið norma.dogg@lrh.is

Allt lið slökkviliðsins kom á staðinn og beita þurfti óhefðbundnum aðferðum að koma tækjum liðsins á staðinn.

Mikill eldur sem magnaðist hratt

Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um 20.30 í gærkvöldi um að eldur væri í byggingu sem áður hýsti Skipamíðastöð Drafnar við Strandgötu. Allt lið slökkviliðsins var sent á vettvang til að slökkva svo kom næturvaktin til aðstoðar og var slökkviliðið á staðnum til kl. 3 í nótt en þá hafði tekist að slökkva allt.

Um 20 mínútum eftir að slökkviliðið fékk tilkynningu um eld

Mikinn reyk lagði upp frá slippnum og mátti sjá hann víða að á höfuðborgarsvæðinu. Örlítill andvari var af austan og lagði reykinn því ekki yfir byggð.

Eldurinn virðist hafa komið upp í stórri skemmu þar sem bátar voru áður smíðaðir í en þetta er hátt stálgrindarhús áfast við gömlu trésmiðjuna en það er hús sem skv. heimildum Fjarðarfrétta voru húseiningar sem fengust frá hernum á sínum tíma.

Reykurinn reis hátt upp. Um 17 mín. frá tilkynningu um eld.

Gríðarlegur eldur var í skemmunni og ljóst að þó húsið væri autt og ekki hafi verið rafmagn í því í heilt ár var mikill eldsmatur í einangrun, gömlum raflögnum og einhverju drasli sem þar var.

Slökkviliðið reyndi að verja bygginguna sem er samföst skemmunni en hafði ekki árangur sem erfiði og allt brann þar nánast sem brunnið gat.

Eldurinn kominn í gömlu trésmiðjuna.

Í því húsi hefur um langt skeið verið starfrækt vélsmiðjan Vélboði sem hefur m.a. hannað og smíðað ýmis tæki fyrir landbúnaðinn. Í rústunum mátti sjá ýmis tæki og tól og gamla Land Rover bifreið sem hafði orðið eldinum að bráð.

Drafnarslippur má muna fífil sinn fegurri en skemman er 344 m² og byggð 1970.

Haraldur Reynir Jónsson sem í gegnum félag sitt á húsnæðið sagði í samtali við Fjarðarfréttir að það hafi verið ömurlegt að horfa upp á þetta brenna en Haraldur er staddur erlendis. Hann segir að sem betur fer hafi enginn slasast og engar skemmdir orðið á nærliggjandi eignum.

Það skásta sem mátti sjá í húsnæði Vélboða.

Er þetta þriðja húsnæðið á hafnarsvæðinu í eigu Haraldar sem brennur á síðustu áratugum, fyrst brann gamla Flensborg, vestan við Íshúsið og fyrir fáum árum brann fiskmarkaðshúsið við Fornubúðir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2