fbpx
Föstudagur, janúar 28, 2022

Vilja hækka leigu um 21% sem var hækkuð um 10% 1. maí

Í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað er áætlað að hækka leigu á félagslegu húsnæði um 21%.

Leiguverð íbúða Hafnarfjarðar­kaup­staðar var í október 2019 1.290 kr./m² og er það bundið vísitölu og breytist á milli mánaða. Lagt er til að hækka leigu­verð um 21%, eða í 1.561 kr.

Var hækkað um 10% 1. maí 2019

Íbúi í félagslegu húsnæði sem hafði samband við Fjarðarfréttir bendir á að leigan hafi hækkað um 10% 1. maí sl. eða rétt mánuði eftir undirritun lífs­kjara­samningana. „Ekki fengum við öryrkjar neina hækkun þá,“ segir hann og bendir á að 21% hækkun ofan á það gerir þá 33,1% hækkun á einu ári. Við það bætist svo vísitöluhækkun. „Þetta kemur sér verulega illa fyrir öryrkja eins og mig og þýðir u.þ.b. 25.000 kr hækkun á leigu á mánuði eða 300.000 kr. á ári en það er 50.000 kr meira en sem nemur útborguðum bótum hjá mér á einum mánuði.“

Leigir 268 íbúðir

Hafnarfjarðarkaupstaður á 260 íbúðir sem reknar eru af Húsnæðisskrifstofu og átta íbúðir sem leigðar eru til endurleigu, þar af eru fimm íbúðir frá Íbúðalánasjóði. Á árinu 2018 voru keyptar fjórtán íbúðir og keyptar hafa verið sjö íbúðir það sem af er þessu ári.
Lengi hefur verið ljóst að samsetning íbúða er ekki í samræmi við þarfir umsækjenda og þess vegna er gert ráð fyrir framlagi að fjárhæð 500 milljónir króna á ári til fjárfestingar í kerfinu á árunum 2020 til 2023. Stefnt er að því að kaupa um 14-15 íbúðir á ári miðað við að meðalverð íbúðar sé nálægt 30 milljónum króna. Lögð hefur verið áhersla á að kaupa 2-3 herbergja íbúðir en biðlistar eru eftir þeim íbúðum.

Heildarviðhaldsfé hækkar en íbúðum fjölgar einnig

Rekstrarkostnaður þessara íbúða felst helst í almennu viðhaldi, svo sem málun og viðhaldi á innréttingum og gólfefni. Jafnframt er tekið þátt í við­haldi sameigna og utanhússviðhaldi. Þegar íbúðir skipta um leigjendur eru þær teknar út og farið í allsherjar við­hald. Nokkur aukning hefur verið á þessum liðum vegna meiri veltu á íbúð­um. Þá eru húsfélög að taka við sér og er vöxtur vegna viðhalds á sameignum frá því sem verið hefur undanfarin ár. Heildarviðhaldsfé er um 87 milljónir króna og hækkar um 8 milljónir króna milli ára, eða um 10%.

Ekki kemur fram í greinargerð með fjárhagsáætlun hvort aukinn viðhalds­kostnaður komi til vegna niðurskurðar á framlagi til viðhalds eins og verið hefur vegna annars húsnæðis Hafnar­fjarðarkaustaðar frá bankahruni og jafnvel lengur.

Sérstakar húsaleigu­bætur koma til móts

Sigurður Haraldsson, sviðstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ segir tap hafi verið á rekstri leiguíbúðanna og því hafi þurft að hækka leiguna. Hún sé þó áfram með lægra móti og með nýlegri samþykkt á sérstökum húsaleigubótum til leigutaka ættu a.m.k. tekjulægstu leigjendurnir ekki að verða fyrir útgjaldaaukningu. Þá segir Sigurður aðspurður að 10% hækkunin í maí hafi í raun átt að koma til verka 1. janúar sl. en hafi verið seinkað til 1. maí.

Þá segir hann húsaleigu í Hafnarfirði áfram verða með lægra móti á höfuðborgarsvæðinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar fréttir

Fylgjstu með

3,320AðdáendurLíka við
53FylgjendurFylgja
0áskrifendurGerast áskrifandi
- Auglýsing -spot_img

Nýjustu greinar