fbpx
Laugardagur, febrúar 24, 2024
HeimFréttirVerslunarstjórinn hressi frá Makedónía

Verslunarstjórinn hressi frá Makedónía

Aleksandar Tasev er 43 ára verslunarstjóri í nýrri verslun Nettó við Selhellu

Aleksandar Tasev er 43 ára verslunarstjóri í hinni nýju glæsilegu verslun Nettó við Selhellu á Völlunum. Hann er ánægður og þakklátur fyrir þær viðtökur sem verslunin hefur fengið hjá Hafnfirðingum og segir að það hafi snert sig þegar viðskiptavinir beygðu sig og buktuðu í þakklætisskyni á opnunardeginum.

Saga Aleksandars á Íslandi er saga duglegs manns frá Makedóníu sem kom til Íslands fyrir tíu árum í leit að auknum lífsgæðum. Hann hefur unnið sig upp í starfi hjá Nettó eða allt frá því hann réð sig í vinnu fyrir um sex árum hjá Samkaupum á Ísafirði – sem síðar varð Nettóverslun. Hann varð vaktstjóri fyrir vestan og eftir það verslunarstjóri í Nettó við Búðakór í Kópavogi þegar hann fluttist suður. Honum bauðst svo að taka við hinni stóru og glæsilegu eitt þúsund fermetra Nettóverslun við Selhellu í Hafnarfirði.

„Ég er auðvitað ekki alveg hlutlaus – en af mörgum glæsilegum Nettó-verslunum finnst mér nú þessi glæsilegust,“ segir hann brosandi. „Hún er stór, björt, nútímaleg, með mikið vöruval og ekki síst gott rými – svo það er afar þægilegt fyrir viðskiptavini að kaupa inn hérna.“

Hjónin bæði verslunarstjórar hjá Samkaupum

Svo skemmtilega vill til að konan hans, Katarina, sem einnig er frá Makedóníu, varð nýlega verslunarstjóri í Krambúðinni við Hófgerði í Kópavogi. Gaman að því; stýra bæði verslunum í eigu Samkaupa. Dugnaðurinn skín í gegn. Þau eiga tvö börn; Jovan, 13 ára, og Elenu, 10 ára. Þau búa í Breiðholtinu þar sem þau eiga íbúð – og börnin ganga í Seljaskóla og una hag sínum vel þar.

„Okkur líður vel á Íslandi og erum þakklát. Hér er friðsamt og vinalegt samfélag. Það er opið og sveigjanlegt með öflugu atvinnulífi og miklum lífsgæðum. Hér er gott að búa og maður skynjar friðinn og frelsið. Makedónína verður ætíð í hjarta okkar en hér eigum við heima. Við erum komin til að vera.“

Þegar verslunin við Selhellu á Völlunum var opnuð fimmtudaginn 3. nóvember hafði Aleksandar verið á staðnum í marga mánuði og tekið þátt í að gera verslunina klára. Hann var með frá fyrsta degi. Þegar kom að opnuninni var hann eðlilega bæði spenntur og þakklátur. Hátíðisdagur var runninn upp.

Margir beygðu sig og buktuðu í þakklætisskyni

„Ég einsetti mér að taka á móti og heilsa sem flestum viðskiptavinum. Ég kom mér fyrir í anddyrinu og bauð þá velkomna. Ég fann strax að það var eftirvænting í lofti hjá þeim. Sem betur fer var jafn og stöðugur straumur fólks hingað allan daginn og fyrir vikið átti ég auðveldara með þetta. Margir beygðu sig og buktuðu í þakklætisskyni. Það snerti mig og sagði meira en mörg orð. Sjálfur er ég fullur þakklætis fyrir viðtökurnar sem verslunin hefur fengið og fyrir þá vegferð sem ég hef fengið að feta innan Samkaupa.“

Mikill stígandi hefur verið í fjölda viðskiptavina í versluninni. „Það tekur auðvitað ákveðinn tíma að ná keppinautunum sem hafa verið hér í hverfinu í áraraðir. En ég get ekki verið annað en sáttur við hvernig þetta fer af stað og hef svo sannarlega gaman af því að láta þá sem koma hingað með gular Bónus-innkaupatöskur fá alvöru bláar Nettótöskur,“ segir hann kankvís á svip.

Makedónía hluti af Júgóslavíu

Hann er alinn upp í Austur-Makedóníu en landið var hluti af Júgóslavíu til ársins 1991. Hann var því aðeins 11 ára þegar Júgóslavía leystist upp við andlát Títós, forseta landsins, og ríkin á Balkanskaganum, sem tilheyrðu Júgóslavíu, urðu sjálfstæð í kjölfarið. Unglingsárin voru í návist stríðsátaka í nágrannaríkjunum á tíunda áratugnum. Blóðugast var stríðið í Bosníu-Hersegóvínu en þar höfðu Serbar, Króatar og múslimar búið í sátt og samlyndi á meðan ríkin voru sameinuð undir hatti Júgóslavíu.

„Það var gott að alast upp í Austur-Makedóníu og ég átti fína æsku. Þar eru ræturnar þótt mér finnist ég orðinn Íslendingur eftir tíu ára búsetu hér. Fjölskyldan er ánægð hér á landi og þakklát fyrir allt. Við ræktum ættingja og vini með því að eyða sumarleyfinu okkar í Makedóníu á hverju ári.“

Ætlaði sér að verða dýralæknir

Hann ætlaði sér að verða dýralæknir og útskrifaðist á því sviði úr menntaskóla. Dýralækningar urðu þó ekki hans lífsins leið. Eftir að hafa byrjað að vinna á veitingahúsi í heimabæ sínum Shtib, fyrst í kjötvinnslu og síðar sem yfirmaður í eldhúsi, varð veitingahúsgeirinn hans vettvangur næstu árin.

En 33 ára vildi hann breyta til og kanna ný tækifæri. Hann tók þá örlagaríku ákvörðun að flytja til Íslands og kanna hér aðstæður. Fjölskyldan varð fyrst um sinn eftir heima. Mestu réð að kunningi hans úr körfuboltanum í Makedóníu, sem flust hafði til Ísafjarðar, hvatti hann til að koma – auk þess sem hinn þekkti makedóníski körfuboltaþjálfari Borce Ilievski, sem þjálfaði hér á landi, lofaði landið og þau tækifæri sem hér væri að finna.

Hvert er ég kominn?

„Mér brá óneitanlega þegar ég kom til Ísafjarðar og snjóþyngslin blöstu við í þessu þrjú þúsund manna bæjarfélagi. Ég hugsaði með mér: hvert er ég kominn? Ég hafði alla tíð búið í 70 þúsund manna borg. En fljótlega fór ég að finna mig í þessu vinalega litla bæjarfélagi. Við félagarnir stofnuðum og rákum saman veitingastaðinn Tycon í tæp fjögur ár. Þetta var taílenskur veitingastaður og þótt ég hefði reynslu sem yfirmaður í eldhúsi höfðum við sem betur fer vit á því að fá til okkar taílenskan matreiðslumann, konu sem kunni til verka í taílenskri matargerð,“ segir hann og brosir.

Þótt hann væri 33 ára og hefði spilað körfubolta í heimalandinu leið ekki á löngu þar til hann mætti á körfuboltaæfingu hjá Vestra á Ísafirði og komst í liðið. „Okkur gekk ágætlega í Íslandsmótinu og ég hafði mjög gaman af þessu. Raunar get ég lítið spriklað núna í boltanum vegna meiðsla í hné.“

Þeir félagar ákváðu að selja veitingastaðinn og Aleksandar hóf störf hjá Samkaupum á Ísafirði en sú verslun varð síðan að Nettóverslun. Og þar fór boltinn að rúlla; fyrirtækið sá í honum öflugan starfsmann og veitti honum tækifæri. Hann greip boltann og er núna verslunarstjóri í einni stærstu og nýtískulegustu Nettóverslun landsins.

Fyrst og fremst þakklátur

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið hjá Samkaupum. Það er mjög gott að vinna hérna. Fyrirtækið heldur vel utan um starfsmenn og býður þeim aðstoð við að rækta sig andlega og líkamlega. Það er lagt upp úr vellíðan og hreinskiptni í samskiptum starfsmanna svo öllum líði sem best. Ánægðir starfsmenn standa sig betur og veita betri þjónustu. Samkaup leggja sömuleiðis mikla áhersla á fræðslu og menntun starfsmanna. Ég sæki til dæmis nám í verslunarfræðum í Verslunarskólanum, nám sem Nettó borgar fyrir, en einnig býðst okkur nám í Háskólanum á Bifröst. Við starfsmenn fáum því tækifæri til að mennta okkur samhliða vinnunni.“

Fram undan er jólaösin eins og hún gerist best í verslunum. „Við erum 25 starfsmenn hér í versluninni á tveimur vöktum. Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum okkar í jólaskapi og erum tilbúin,“ segir Aleksandar Tasev að lokum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2