Verkföll í grunnskólum og frístundaheimilum

Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar

Skóla- og frístundaliðar, stuðningsfulltrúar, skólaritarar og húsumsjónarmenn og aðrir sem eru í Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar og starfa í grunnskólum og frístundaheimilum Hafnarfjarðarbæjar standa nú í verkfallsaðgerðum.

Er félagið í BSRB sem fer með samningsumboðið í viðræðum sínum við Samband íslenskra sveitarfélag sem í þessu máli fer með umboð Hafnarfjarðarbæjar. Eftir um fjögurra mánaða árangurslausar samningaviðræður var boðað til verkfalla, ekki aðeins í Hafnarfirði, heldur í 29 sveitarfélögum sem eru aðildarfélög.

Fyrsta verkfallið var í Hafnarfirði í morgun þegar skóla- og frístundaliðar, stuðningsfulltrúar, skólaritarar og húsumsjónarmenn lögðu niður störf til kl. 12.

  • Þriðjudaginn 23. maí: Til kl. 12. 
  • Miðvikudaginn 24. maí: Allan daginn  

Nemendur sem ekki þurfa stuðningsfulltrúa mæta fyrstu tvær kennslustundirnar

Enginn má ganga í störf þessa starfsfólks nema skólastjóri. Náist ekki samkomulag verða grunnskólar Hafnarfjarðarbæjar opnir sem hér segir:  

  • Þriðjudagur 23. maí: Skólastarf samkvæmt stundaskrá fyrstu tvær kennslustundirnar og samkvæmt stundaskrá frá kl. 12.00. Ekkert skólastarf er eftir fyrstu tvær kennslustundirnar fram til kl. 12.00. Frístundastarf og opnun félagsmiðstöðva er óbreytt. 
  • Miðvikudagur 24. maí. Skólastarf samkvæmt stundaskrá fyrstu tvær kennslustundirnar og ekkert skólastarf eftir það. Frístundaheimili eru lokuð. Starfsemi félagsmiðstöðva er óbreytt. 

Verkfallið hefur áhrif á gæslu, matmálstíma og stuðning við einstaka nemendur. Mögulegt er að skólinn muni hafa samband við foreldra barna með miklar sértækar stuðningsþarfir. Búast má við að engin símsvörun verði meðan verkföll standa. 

Skóli án aðgreiningar?

Viðmælendur Fjarðarfrétta hafa vakið athygli á því að sagt sé að skólinn sé án aðgreiningar og ljóst að þeir nemendur sem þurfa stuðningsfulltrúa geta ekki mætt í skólann með samnemendum sínum í fyrstu tvo tímann á morgun og miðvikudag.

Víðtækari verkföll framundan

Á síðu BSRB segir að sveitarfélög landsins séu að mismuna starfsfólki sínu, fólki sem vinnur sömu eða sambærileg störf, jafnvel inni á sömu vinnustöðum, með þeim afleiðingum að sumir eiga að sætta sig við 25% minni launahækkun en aðrir. „Þannig er starfsfólki gert að horfa upp á það að vinnufélagar þeirra, í nákvæmlega sömu vinnu, fái launahækkun frá 1. janúar, en það sjálft ekki fyrr en 1. apríl,“ segir í tilkynningunni.

Ef ekki verður búið að semja mun starfsfólk sundstaða í Hafnarfirði leggja niður vinnu ótímabundið frá 5. júní nk.

Eins mun starfsfólk þjónustuvers Hafnarfjarðar leggja niður störf 5. júní – 5. júlí hafi ekki samist.

Ummæli

Ummæli