Betri samgöngur hafa sett af stað vinnu við frumdrög 4. lotu Borgarlínu um Hafnarfjörð.
Fyrirhuguð lega Borgarlínu mun liggja um Reykjavíkurveg niður að Fjarðargötu fram hjá bókasafni Hafnarfjarðar við Strandgötu 1.
Reykjavíkurvegur við Strandgötu 1 er þröngur, þar sem bókasafnsbyggingin nær alveg að lóðamörkum. Það þýðir að takmarkað svigrúm verður til staðar til að koma fyrir Borgarlínu í sérrými.
Þetta kemur fram í bréfi sem hefur verið sent sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar og undirritað af Hallbirni Reyni Hallbjörnssonar frá Betri Samgöngum,
Íris Þórarinsdóttur og Stefáni Gunnari Thors fyrir hönd hönnunarteymis frumdraga Borgarlínu í Hafnarfirði.
Húsið sé í slæmu ásigkomulagi og því talið líklegt að nýr eigandi muni rífa það
Í bréfinu segir: „Við höfum fengið ábendingu um að húsið sem hýsir nú bókasafnið við Strandgötu 1 sé komið í söluferli ásamt nærliggjandi lóðum. Við höfum jafnframt fengið þær upplýsingar að húsið sé í slæmu ásigkomulagi og því talið líklegt að nýr eigandi muni rífa það frekar en að ráðast í endurbætur. Ef svo verður skapast tækifæri til að nýta hluta af þeirri lóð sem húsið stendur á, til að auka svigrúm fyrir Borgarlínu í sérrými á þessum kafla. Það myndi auka greiðfærni Borgarlínu um Hafnarfjörð, sem annars væri erfitt að ná fram með tilliti til rýmis og byggðar í kring. Um er að ræða nokkra metra af lóðinni meðfram Reykjavíkurvegi eða um það bil 4-7m, til að ná fullu staðalsniði Borgarlínu.“
Ný Borgarlínustöð við Bæjartorg
Í frumdrögum Borgarlínunnar er áformað að koma upp kjarnastöð Borgarlínu við Bæjartorg, þar sem hringtorgið er staðsett í dag. Þessi stöð myndi koma í stað skiptistöðvar við Fjörð sem mun ekki vera sá tengipunktur fyrir almenningssamgöngur sem hann er í dag. Segir í bréfinu að ný Borgarlínustöð við Bæjartorg muni efla svæðið sem miðsvæði og samgöngumiðju sem gæti haft jákvæð áhrif á verðmæti fasteigna í nágrenninu þ.m.t bóksafnslóðina og nærliggjandi lóðir. Það bjóði líka upp á spennandi tækifæri að hanna lóðina í samhengi við nýja götumynd og borgarumhverfi.
„Í því samhengi má ætla að nýting hluta bókasafnslóðarinnar í þágu Borgarlínu gæti verið hagkvæm fyrir lóðarhafa ef til niðurrifs kæmi, þrátt fyrir að lóðin mundi minnka lítillega,“ segir í bréfinu
Kvöð verði sett við sölu Bókasafnshússins

Æskilegt væri að setja kvöð á þann hluta Strandgötu 1 sem nær út í göturýmið til að tryggja sérrými Borgarlínu ef til
niðurrifs á húsinu kemur.
Betri samgöngur hafa óskað eftir fundi með Hafnarfjarðarbæ til að ræða frekar möguleikann á að setja fram formlega kvöð, samhliða söluferli hússins, ef til niðurrifs kemur, um að nýta megi hluta lóðarinnar fyrir Borgarlínu.


