Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir á að notkun verkjalyfsins Fentanýl skal ávallt vera í samráði við lækni.
Fentanýl er mjög sterkt verkjalyf og getur valdið dauða hjá þeim sem kunna ekki með það að fara.
Fjölmörg dauðsföll á Norðurlöndunum eru rakin til notkunar á fentanýl, en lögreglan rannsakar nú andlát ungs manns á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi þar sem grunur leikur á að umrætt lyf hafi komið við sögu. Lögreglan hefur jafnframt áhyggjur að fentanýl kunni að ganga hér kaupum og sölum í formi dufts, kristalla og taflna. Vitað er að fentanýl er boðið til sölu á netinu hjá aðilum í Asíu og Suður-Ameríku.
Lögreglan ítrekar að fentanýl er mjög sterkt verkjalyf og því stórhættulegt í höndum þeirra sem kunna ekki með það að fara og á einvörðungu að nota í samráði við lækni.
Landlæknisembættið skoðaði dausföll vegna notkunar Fetanyls þegar árið 2004 eins og sjá má á síðu embættisins hér.