fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirÚrskurðarnefnd felldi á ný úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir Suðurnesjalínu 2

Úrskurðarnefnd felldi á ný úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir Suðurnesjalínu 2

Nefndin felldi hins vegar úr gildi höfnun Sveitarfélagsins Vogar á sambærilegu leyfi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í tillkynningu frá Landsneti í morgun segir að framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og kerfisáætlun sem samþykkt hafi verið af Orkustofnun.  Auk þess hafi hún sætt ítarlegu mati á umhverfisáhrifum þar sem mismunandi valkostir hafi verið metnir og samráð frá upphafi haft við sveitarfélög, umhverfisverndarsamtök, landeigendur og aðra hagaðila.

Önnur sveitarfélög á línuleiðinni, Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, höfðu samþykkt framkvæmdaleyfin en fimm umhverfisverndarsamtök kærðu leyfisveitingarnar. Úrskurðarnefndin skilaði jafnframt niðurstöðu í þeim málum í dag og hafnaði kröfu umhverfissamtakanna um að framkvæmdaleyfi Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar væru felld úr gildi en nefndin felldi hins vegar úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar.

Framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fellt öðru sinni úr gildi

Hraunavinir, Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir umhverfissinnar kærðu þá ákvörðun sveitarstjórnar Hafnarfjarðar frá 3. febrúar 2021 að veita Lands­neti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka Hafnarfjarðarbæjar. Var þess krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi.

Langur aðdragandi

Áform Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 eiga sér langan aðdraganda. Fjallað var um framkvæmdina í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Suðvestur­­lína sem lá fyrir 17. september 2009. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á nánar tilteknum jörðum vegna lagningar Suðurnesjalínu 2, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015. Ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013, um að veita Landsneti leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 13. október 2016, í máli nr. 796/2015.

Línuvegur fyrir Suðurnesjalínu 2, sem lagður var um ósnortið hraun í Hafnarfirði í krafti framkvæmdaleyfis sem síðar var fellt úr gildi.

Hafði bæjarstjórnin heimild til að velja valkost C?

Meginágreiningur kærumálsins nú lýtur að því hvort sveitarstjórn hafi verið heimilt að lögum að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C. Telja kærendur svo ekki vera og tefla fram þeim rökum að sveitarstjórn hafi við töku hinnar kærðu ákvörðunar borið að leggja til grundvallar álit Skipulagsstofnunar um að valkostur B hafi í för með sér minni umhverfisáhrif, en álitið bindi sveitarstjórnir nema til komi sérstök og málefnaleg rök sem styðji aðra niðurstöðu. Sveitarstjórn hafi hvorki rökstutt ákvörðun sína né rannsakað málið með fullnægjandi hætti, auk þess sem framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt. Fjárhagsleg sjónarmið hafi ráðið för og ekki hafi staðið brýn nauðsyn til að leggja loftlínu í stað jarðstrengs. Valkostamat hafi verið gallað og sé valkostur Landsnets ekki í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Þá gera kærendur ýmsar athugasemdir er varða Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027. Þá hafi sveitarstjórn ekki byggt ákvörðun sína á hlutlægum og málefnalegum grunni heldur á samkomulagi frá 9. júlí 2015 sem sveitarfélagið hafi gert við Landsnet og verið skuldbundið af.

Ekki séð hvaða ástæður lágu til grundvallar

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki af rökstuðningi bæjarstjórnar glögglega ráðið hvaða ástæður lágu því til grundvallar að samþykkt var framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C.

Efnislegur rökstuðningur bæjarstjórnar var einkum á þá leið að vissulega væri tekið undir þá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar að margt mælti með því að frekar yrði lagður jarðstrengur alla leið og væri þá sérstaklega vísað til valkostar B meðfram Reykjanesbraut, en það væri þó mat sveitarfélagsins „að valkostur C samræmist vel þeim hugmyndum í greinargerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 er varðar legu og breytingar á rafveitu­kerfi Landsnet innan marka sveitarfélagsins.“ Má ljóst vera að sá rökstuðningur uppfyllir ekki skilyrði þau sem gera verður til efnisinnhalds hans skv. 22. gr. stjórnsýslulaga til að sýnt verði að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og að til þess hafi verið tekin rökstudd afstaða í skilningi 2. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 106/2000, sbr. lagaskilaákvæði 18. gr. laga nr. 96/2019. Þeir ágallar á rökstuðningnum benda aukinheldur til þess að verulega hafi skort á að vegin væru þau neikvæðu umhverfisáhrif sem yrðu af lagningu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu og þau metin andspænis öðrum hagsmunum, t.d. þeim sem felast í afhendingaröryggi.

Felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 3. febrúar 2021 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka Hafnarfjarðarbæjar.

Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar felst að sveitarfélagið Vogar og Hafnarfjarðarbær þurfa að taka umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu að nýju.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. – Ljósm. af vef Landsnets.

„Við töldum mikilvægt að kæra ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem úrskurðarnefndin hafði þá þegar til afgreiðslu kærur náttúruverndarsamtaka á framkvæmdaleyfum Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Nú liggur fyrir niðurstaða úrskurðarnefndarinnar og er ákvörðun Voga um að hafna framkvæmdaleyfinu ógild og að Hafnarfjörður þarf að setja málið aftur á dagskrá.   Málið er því aftur komið inn á borð Voga og Hafnarfjarðarbæjar. Við vonumst til hægt verði að afgreiða málin sem fyrst þannig að hægt verði að hefjast handa við byggingu  Suðurnesjalínu 2,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Lesa má úrskurðina hér

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2