Slóðar í upplandi bæjarins í mjög slæmu ástandi

Djúp för eftir krossara á viðkvæmum Selstígnum ofan Stórhöfa.

Slóðinn frá Stórhöfða að Kaldárseli er í mjög slæmu ástandi og þolir illa álag hjóla og hesta

Hafnarfjörður getur státað sig af einu fjölbreyttasta og fallegasta upplandi á Íslandi, ekki síst þegar horft er til aðgengis að því.

Samt hefur verið lítið gert til að laga slóða, leggja stíga, stikur og merkja. Um 40 ár eru síðan stikur með litamerkingum voru settar upp við helstu gönguleiðir en tíminn hefur farið illa með þær og víða eru þessar merkingar horfnar.

Ein af gömlu veðurbörðu stikunum á lítt notuðum gönguslóða á Helgafelli.

Gamlar þjóðleiðir á Reykjanesi merktar

Gamlar þjóðleiðir eru þó að hluta vel merktar en það má þakka Ferðamálasamtökum Suðurnesja sem hafði frumkvæði að merkingu þeirra sem margir þekkja sem gulu stikurnar með bókstöfum og tölum. Eitthvað styrkti Hafnarfjarðarbær þetta verkefni 2010 en Hitaveita Suðurnesja var aðalstyrktaraðilinn og tók að sér að halda stikunum við.

Merking á Stórhöfðastíg

Ekki er að sjá að til sé metnaðarfull stefna bæjarfélagsins um uppland bæjarins þar sem gerð er grein fyrir verndarstefnu, áætlunum um göngu- og hjólaleiðir og stefnumörkun um nýtingu svæðisins til almannaheilla.

Víða má enn sjá merki eftir akstur fyrri ára sem hafa dýpkað við m.a. umferð hesta.

Sífellt fara fleiri um upplandið

Sífellt fara fleiri um upplandið og ágangur er víða mikill. Um sömu viðkvæmu slóðana fer fólk gangandi, á reiðhjólum, á mótorhjólum og á hestum enda eru stígarnir mjög illa farnir á köflum. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að bera í slóða ef frá er talið svæðið umhverfis Hvaleyrarvatn og að hluta við Kaldárbotna.

Jafnvel á vindasömum rigningardegi er fólk á ferli, fólk sem spurði um bláu stikurnar!

Mikilvægt er að tryggja gott aðgengi að upplandinu um leið og það er verndað enda mjög víða að finna minjar og mannvistarleifar sem sennilega eru fæstar formlega skráðar og alls ekki þar sem almenningur hefur greiðan aðgang að.

Fjölfarinn stígur niður að Hvaleyrarvatni sem er í slæmu ásigkomulagi.

Ógrynni upplýsinga til

Ef áhugi er fyrir hendi að skrá og merkja minjar og mannvistarleifar í landi Hafnarfjarðar eru til ógrynni upplýsinga. M.a. hefur Ómar Smári Ármannsson reglubundið skráð minjar á Reykjanesinu og á heimasíðu hans, ferlir.is er líklega að finna bestu skráningu minja um mannvist, sel og fl. á svæðinu. Þá hafa fleiri haldið til haga fróðleik um söguna og má þar t.d. nefna Jónatan Garðarsson.

Göngur um upplandið gefur fólki m.a. kost á að sjá rjúpur af stuttu færi.

Hafnarfjarðarbær er því í mjög góðri stöðu þegar kemur að merkingu og formlegri skráningu minja í bæjarlandinu, ekki síst þegar þekkingin er til staðar í bæjarfélaginu. Nú vantar aðeins vilja stjórnmálamanna til að marka stefnuna

Þarna er enn um 2 m snjór yfir gönguleiðinni sem verndar hana. Stórhöfði í baksýn.
Stígarnir þola illa ágang í bleytunni og alls ekki mótorhjóla sem ekki er heimilt að aka utanvega.

Ummæli

Ummæli