fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFréttirUmhverfiðPlast má fara í orkutunnuna í mars

Plast má fara í orkutunnuna í mars

Flokkun og skil á plasti gerð auðveldari fyrir íbúa Hafnarfjarðar

Í mars verður tekinn í notkun nýr búnaður í móttöku- og flokkunarstöð SORPU sem mun auðvelda flokkun á plasti til endurvinnslu. Þá verður einfaldlega hægt að setja hreint plast í lokuðum plastpoka í gráu sorp­tunnuna og SORPA flokkar það svo vélrænt frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Nýi tækjabúnaðurinn mun meta eðlisþyngd plastsins og blæs pokum með flokkuðu plasti frá öðrum úrgangi. Ekki mun þurfa neina sérstaka poka undir plastið, að öðru leyti en því að þeir þurfa að vera úr plasti. Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að draga úr urðun plasts og nýta betur hráefni í plastinu. Aðal­málið er að halda plastinu sér í lokuðum pokum þannig að vélbún­að­urinn geti unnið sitt verk.

Hvers vegna að flokka plast?

Plast er búið til úr olíu, sem er óend­urn­­ýjanleg auðlind og segir Helga Ing­ólfs­dóttir formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar mikil­vægt að nýta plastið betur en nú er gert.

„Plast brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni og getur valdið lífríkinu skaða sleppi það óhindrað út í umhverfið. Ábyrgð okkar allra er að umgangast auðlindir jarðar af virðingu og koma úrgangi í þann farveg að hráefni nýtist á nýjan leik en fari ekki til spillis eða valdi umhverfinu skaða.

Helga Ingólfsdóttir

Með því að bjóða íbúum að flokka heima næst meiri árangur en markmiðið er að sjálfsögðu í fyrsta lagi að minnka notkun á plasti og síðan að koma öllu plasti sem til fellur í endurvinnslu. Húsasorpsrannsókn Sorpu sýnir að plast er næstum 20% af sorpinu í gráu tunnunni og því til mikils að vinna fyrir okkur að ná plastinu til endurvinnslu með því að setja það í sérstaka poka í tunnuna.“ segir Helga.

Plastflokkun í plastpoka er sam­starfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga, Hafnarfjarðar, Garða­bæj­ar, Mosfellsbæjar og Seltjarnar­nes­bæjar. Í aðdraganda verkefnisins tóku íbúar á Seltjarnarnesi þátt í tilrauna­verkefni um flokkun á plasti í poka sem setja mátti í sorptunnuna. Starfsmenn SORPU flokkuðu svo plastið frá öðrum úrgangi. Tilraunaverkefnið stóð yfir í rúmt ár og tæplega sjöfaldaðist magn plasts í endurvinnslu frá íbúum á Seltjarnarnesi á þeim tíma. Aðferðin er einföld, hagkvæm, leiðir af sér veru­legan umhverfisávinning og hefur aukna þjónustu við íbúa að leiðarljósi. Starfs­menn Sorpu vinna nú að undir­búningi á uppsetningu á tilheyrandi vélbúnaði og gert er ráð fyrir að taka búnaðinn í notkun í byrjun mars. Íbúar Hafnarfjarðar munu fá nánari upp­lýsingar um hvernig á að flokka plastið síðar í þessum mánuði.

Grenndar­gáma­stöðvum fjölgað?

Grenndargámastöðvar eru nú staðsettar á 7 stöðum í Hafnarfirði og segir Helga að í skoðun sé að fjölga þeim. Grenndargámar taka við öllu gleri til endurvinnslu og auk þess pappír og plasti ef heimilistunnur anna ekki magni. Fyrir langflesta er tíðni losunar viðunandi að sögn Helgu en hægt er að fá fleiri tunnur fyrir stór heimili gegn gjaldi eða nýta sér grennd­ar­gámana og móttökustöðvar Sorpu fyrir umfram sorp.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2