fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífMikill áhugi fyrir Ratleiknum

Mikill áhugi fyrir Ratleiknum

Fólk leitar að merkjum í bæjarlandinu fram á haust

Hratt hefur gengið á Rat­leikskortin og með sama fram­haldi verða þau uppurin á allra næstu vikum. Því fer hver að verða síðastur að ná sér í eintak og hefja leit að einhverjum hinna 27 ratleiksmerkja sem búið er að koma fyrir víðs vegar um bæjarlandið.

Frítt ratleikskort
Frítt ratleikskort

Í ár er meginþemað landamerki og eyktamörk. Voru eyktamörk staðir sem miðað var við þegar horft var til sólu frá viðkomandi bæ. Hádegishóll, skammt aftan við slökkvistöðina er t.d. eyktar­mörk frá Hraunsholti. Stuttur gangur er að sumum merkjanna og þau auðfundin en lengra er í önnur og það getur þurft nokkra útsjónarsemi til að finna aðra staði. Þá er mikilvægt að undirbúa sig vel, skoða kort vel og sjá hvaðan best er að koma að viðkomandi stað. Krossstapar sem eru á mörkum Hafnarfjarðar og Voga er t.d. best að koma að úr norðri, þá bera þeir betur við himin.

Góð þátttaka

Við Stóra-Grænhól. Ljósmynd: Guðni Gíslason
Við Stóra-Grænhól

Þátttaka undanfarin ár hefur verið mjög góð og flestir þeirra sem hafa skilað inn lausnum hafa farið á alla 27 staðina. Engin krafa er um að skila inn lausnum heldur er markmið leiksins að hvetja fólk til að ferðast um upplandið, njóta fjölbreyttrar náttúrufegurðar og að sjálfsögðu að njóta góðrar útiveru. Hins vegar er til mikils að vinna með því að skila inn því vinningar eru glæsilegir. Eru þrír heppnir þátttakendur dregnir út fyrir hvern flokk auk þess sem allir sem mæta á uppskeruhátíðina í haust eiga möguleika á útdráttarverðlaunum.
Léttfeti, Göngugarpur eða Þrautakóngur.

Bleikastein ættu íbúar á Völlum að þekkja - Ljósmynd: Guðni Gíslason
Bleikastein ættu íbúar á Völlum að þekkja – Ljósmynd: Guðni Gíslason

Flokkarnir eru Léttfeti, Göngu­garpur og Þrautakóngur en til að teljast Léttfeti þarf að finna 9 staði, Göngugarpur verður fólk sem finnur 18 staði og Þrauta­kóngar eru þeir sem finna alla staðina. Á hverjum stað er rat­leiks­merki, græn og hvít málm­plata með lausnarorði sem skrifa þarf niður til að sanna að viðkomandi hafi komið á stað­inn.

Stendur til 25. september

Markraki. Ljósmynd: Guðni Gíslason
Markraki

Leikurinn hófst í byrjun júní og stendur fram til 25. september en lausnum skal skila í þjón­ustuverið í Ráðhúsinu við Strandgötu. Fólk er að sjálfsögðu hvatt til að taka þátt og skila inn lausnum. Leikurinn er tilvalinn fyrir fjölskyldur, vinahópa og starfsmannahópa en að sjálf­sögðu má fólk taka þátt í leiknum eitt með sjálfu sér og náttúrunni. Mikilvægt er að minna á að eins og í lífinu er endamarkið ekki aðalatriðið heldur leiðin að því en víða leynast gersemar sem vert er að horfa eftir á leið að ratleiksstöðunum. T.d. er tilvalið þegar búið er að finna merki nr. 27 á Hraun-krossstapa að ganga í 300 m til suðurs og finna þar magnað fyrirbrigði, Urðarás, þar sem hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, senni­legast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan.

Styrktaraðilar

Hönnunarhúsið ehf. gefur leikinn út fyrir Hafnarfjarðarbæ og auk bæjarsins styrkja ýmsir útgáfu Ratleiksins. Aðalstyrktar­aðili í ár er VHE, Vélsmiðja Hjalta Einarssonar en auk þess styðja, Fjarðarpósturinn, Hress, Fjarðarkaup, Altis, Gáma­þjón­ustan, Fjallakofinn, Fura, Gróðrastöðin Þöll, Músik og sport, Burgerinn, Hafís og Hafn­ar­fjarðarhöfn leikinn.

Markasteinn, Ljósmynd: Guðni Gíslason
Markasteinn

Guðni Gíslason hefur lagt leik­inn undanfarin níu ár með góðri aðstoð Ómars Smára Ármanns­sonar sem lagt hefur til fróð­leikmola um staðina.

Kortin má fá í Fjarðarkaupum, í Ráðhúsinu, á Bókasafninu, á sundstöðum og víðar.

Sjá nánar um Ratleikinn á bloggsíðu leiksins og á Facebook

Hluti af ratleikskortinu
Hluti af ratleikskortinu

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2