Fylgst með vatnsyfirborði Hvaleyrarvatns vegna eftirlits með aukinni vatnsnýtingu í Vatnsendakrikum

Yfirborð Hvaleyrarvatns breytist í takt við vatnsmagn í Kaldá

Lág vatnsstaða Hvaleyrarvatns í september 2014. Ljósmynd: Guðni Gíslason.

Verkfræðistofan Mannvit hefur fengið leyfi til að setja upp vatnshæðarmæli í Hvaleyrarvatni. Er það vegna áforma um aukið eftirlit með vatnsvinnslu í Vatnsendakrikum í Heiðmörk og mögulegu samspili vinnslu þar og grunnvatnshæðar á vinnslusvæði Vatnsveitu Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum.

Mælirinn á að vera í ótilgreindan tíma eða fram til 2020 hið minnsta. Verður eins tommu rör lagt ca. 24 m útí vatnið. Á bakkanum á svo að koma fyrir mælingatæki.

Það hefur lengi verið ráðgáta hvað valdi breytingum á vatnsyfirborði Hvaleyrarvatns sem ekki lýtur sömu lögmálum og yfirborð Ástjarnar. Á síðasta ári var vatnsyfirborð Hvaleyrarvatns mjög lágt á sama tíma og hæð vatnsyfirborðs Ástjarnar var í sögulegu hámarki. Í september 2014 héldu eldri skátar fund í Skátalundi við Hvaleyrarvatn og var efni hans „Hvert fór vatnið“. Dagur Jónsson vatnsveitustjóri fræddi þar um vatnsbúskap Hafnfirðinga og hugsanleg áhrif of mikillar dælingar í Vatnsendakrika. Í máli hans kom fram að ef of miklu væri dælt upp í Vatnsendakrikum myndi það örugglega valda því að Hafnarfjarðarbær þyrfti að fara að dæla upp vatni í Kaldárbotnum en hingað til hefur vatnið verið sjálfrennandi.

Eftir þennan fund var grannt fylgst með yfirborði Hvaleyrarvatns og þegar það skyndilega fór að rísa var tekið eftir því að vatn fór að renna í Kaldána sem hafði verið þurr á sama tíma og vatnsyfirborð Hvaleyrarvatns var lágt. Greinilegt samspil er því þarna á milli og ef grunnvatnsstaða lækkar vegna of mikillar uppdælingar verður ekkert vatn í Kaldánni og yfirborð Hvaleyrarvatns mun lækka.

Ummæli

Ummæli