Trúnaður er á niðurstöðu söluferlis á hlut bæjarins í HS veitum sem kynnt var í bæjarráði í gær

Verður hlutur bæjarins í HS veitum seldur árið sem fyrirtækið flytur í nýtt húsnæði í Hafnarfirði?

Á fundi bæjarráðs 22. apríl sl. var samþykkt að hafinn yrði undirbúningur að sölu hlutabréfa sveitarfélagsins í HS veitum hf. með það að markmiði að hlutabréf sveitarfélags verði seld. Hafnarfjarðarkaupstaður á 15,42% hlutafés HS veitna.

Á auka fundi bæjarráð í gær var niðurstaða söluferlis kynnt en þá mættu til fundarins Bjarki Logason og Magnús Edvardsson frá Kvikubanka hf. og Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs bæjarins og Sigurður Nordal hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ.

Farið var  yfir ferlið á fundinum og niðurstöður kynntar en að sögn Ágústs Bjarna Garðarssonar, formanns bæjarráð ríkir trúnaður á niðurstöðunum fram að fundi bæjarráðs á fimmtudag.

Skv. heimildum Fjarðarfrétta liggur fyrir tilboð í hlut bæjarins en engin tillaga er komin fram um að taka því tilboði. Verði slík tillaga lögð fram og samþykkt fer málið til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Verulegur ágreiningur hefur verið um fyrirhugaða sölu á hlutabréfum í HS veitum en eignarhluturinn varð til er Rafveita Hafnafjarðar var lögð inn í Hitaveitu Suðurnesja.

Fulltrúar Samfylkingar, Miðflokks, Viðreisnar og Bæjarlista gagnrýndu m.a. harðlega þau vinnubrögð að fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ætli að taka ákvörðun um og hugsanlega ganga frá sölu á hlut bæjarins í HS Veitum á einungis nokkrum vikum frekar en fylgja hefðbundnum verkferlum á þeim forsendum að það gæti tafið málið til hausts. Þá var einnig gagnrýnt að upplýsingar um áætlað umfang samningsins hafa verið teknar út og upplýsingum um söluprósentu Kvikubanka haldið leyndri fyrir almenningi. Töldu fulltrúar flokkanna m.a. að samningur hafi verið gerður við Kviku áður en söluferlið var samþykkt í bæjarrjáði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here