fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFréttirTólf fleiri rými fyrir einstaklinga með heilabilun á Sólvangi

Tólf fleiri rými fyrir einstaklinga með heilabilun á Sólvangi

Hafnarfjarðarbær og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. undirrituðu í dag samning um rekstur sérhæfðrar dagdvalar á Sólvangi. Samningurinn tekur til reksturs tólf sérhæfðra dagdvalarrýma á Sólvangi og hefur það að markmiði að tryggja öldruðum einstaklingum með heilabilun tiltekna þjónustu og styðja við aðstandendur þeirra með rekstri sérhæfðrar dagdvalar.

Halla Thoroddsen framkvæmdastjóri Sóltúns og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri undirrita samning um rekstur sérhæfðrar dagdvalar á Sólvangi.

Alzheimersamtökin faglegur bakhjarl

Hafnarfjarðarbær leggur til fullbúið og nýlega endurnýjað húsnæði á 1. hæð á Sólvangi, Sólvangsvegi 2 í Hafnarfirði. Sóltún öldrunarþjónusta mun sjá um rekstur rýmanna og er áhersla lögð á samvinnu við Alzheimersamtökin sem faglegum bakhjarli en Alzheimersamtökin munu á árinu flytja í Lífsgæðasetur St. Jó að Suðurgötu 46 í Hafnarfirði og opna þar nýja þjónustumiðstöð.

„Áform okkar um uppbyggingu á heildrænni þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara á Sólvangssvæðinu heldur áfram. Uppbyggingin hefur miðað vel síðustu mánuði og ár og nú bætast við þessi tólf sérhæfðu rými. Mikilvæg viðbót sem er til þess fallin að samþætta enn frekar faglega alhliða þjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði. Næstu skref snúa að endurbótum og uppbyggingu á 2., 3. og 4. hæð í gamla Sólvangi í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið. Þar er um að ræða spennandi þróunarverkefni sem verið er að útfæra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningu.

Sóltún öldrunarþjónusta er í dag rekstraraðili hjúkrunarheimilis í nýbyggingu við Sólvang og dagdvalar fyrir aldraða á fyrstu hæð í gamla Sólvangi.

Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili var opnað 2019 og leysti þar með af hólmi gamla Sólvang. Samhliða var tekin ákvörðun um að fjölga hjúkrunarrýmum á Sólvangi til viðbótar þeim 60 rýmum sem eru í nýbyggingunni og fara af stað í framkvæmdir og umtalsverðar endurbætur á gamla Sólvangi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2