Töldu að Hafnarfjarðarbær stæði að dýraníði í miðbænum

Verslunareigandi sendi bréf til bæjarsjtóra með ásökunum um dýranýð

Hestarnir virðast mjög gæfir

Bettina Wunsch hefur undanfarin ár verið með hesta sína í miðbænum um helgar í desember þar sem þeir hafa dregið hestvagn sem gestir miðbæjarins hafa beðið í röðum eftir að fá að sitja í í ferð um miðbæinn.

Bettína við hestana sína

Hefur hestvagninn sett mikinn svip á miðbæinn og hestarnir hafa verið vinsælir þar sem þeir hafa verið í girðingu á lóðinni á móts við Fjörð. Hefur Bettína haft nokkra hesta til að skiptast á að draga vagninn, en tveir hestar draga vagninn hverju sinni.

Bettína kemur með hestana frá Brautartungu, skammt austan Þjórsár og segir Bettína hestana vel þjálfaða og óskapleg gæfa og rólega.

Hestvagn Bettínu við Jólaþorpið

Ferðir hestanna fór hins vegar fyrir brjóstið á eigendum Veganbúðarinnar á Strandgötu 32, en það er aðallega vefverslun skv. upplýsingum á heimasíðu búðarinnar.

Veganbúðin, sem er við hlið gæludýrabúðar.

Sendu þeir bréf til bæjarstjóra þar sem bæjaryfirvöld voru ásökuð um að taka þátt í alvarlegu dýraníði. Fulltrúar Veganbúðarinnar hafa ekki svarað fyrirspurnum Fjarðarfrétta og vísa í tilkynningu þar sem hvergi er minnst á að þeir hafa sent kvörtun. Óskuðu Fjarðarfréttir eftir að fá afrit af bréfinu en þeirri ósk hefur ekki verið svarað.

„Við birtum yfirlýsingu áðan og eftir það áreiti sem við höfum orðið fyrir í dag höfum við ákveðið að tjá okkur ekki frekar um málið.“

Var brugðist við með því að óska þess að Bettína kæmi ekki með hestana fyrr en kl. 16 í dag laugardag, en búðinni er lokað þá. Reyndar hermdu aðrar fréttir að óskað væri eftir því að hún yrði aðeins á sunnudögum en það hefur ekki fengist staðfest. Mun hafa verið vilji forsvarsmanna Jólaþorpsins að „gera öllum til geðs“.

Skv. heimildum Fjarðarfrétta mun ásakanir Veganbúðarinnar hafa snúist að stærð girðingarinnar sem hestarnir eru í sem eru þó stærri en sú aðstaða sem hestar hafa almennt í hesthúsum.

Var Bettína mjög ósátt við ákvörðun Jólaþorpsins enda taldi hún vart þess virði að koma með hestana fyrir styttri tíma en verið hefur.

Miklar umræður hafa verið á samfélagsmiðlum um þetta mál og fólk oft heitt í hamsi. Hefur komið fram að fólk hafi haft í hótunum við eigendur Veganbúðarinnar.

Eins og áður segir, sendi Veganbúðin frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í kjölfar háværrar umræðu um hestvagna í Jólaþorpinu í Hafnarfirði viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Ekkert af þessari umræðu hefur verið á forsendum grænkera eða Vegan búðarinnar og mikið hefur komið fram af rangfærslum og misskilningi um þetta mál. Ákvörðun um að breyta dagskrá hestvagnsins var tekin af fulltrúum Hafnarfjarðar í gær og ákvörðun tilkynnt eiganda hestanna. Hún birti tilkynningu þess efnis á sínum Facebook aðgangi áður en bærinn hafði birt upplýsingar um ákvörðunina eða rökstuðning um hana. Í kjölfarið hófst mikill stormur og hefur svívirðingum, hatri og hótunum rignt yfir bæði Vegan búðina og grænkera almennt.

Hvorki bærinn né við höfum verið beðin um rökstuðning né veittur kostur á að koma málefnalegum sjónarmiðum á framfæri. Þess ber að geta að samkvæmt samtali við fulltrúa bæjarins í gær snerist fjarvera hestanna í dag um óbærilegt frost, sem ég vona að þið getum öll verið sammála um að sé góð ákvörðun út frá dýraverndarsjónarmiðum. Að öðru leyti er áætluð einhver breyting á dagskrá þeirra og við vonum að bærinn stígi fram með áreiðanlegar upplýsingar um breytinguna og rökstuðning frá þeirra hálfu við fyrsta tækifæri.

Það rétta er að eftir fjölda áskorana frá viðskiptavinum og grænkerum komu eigendur Vegan búðarinnar athugasemdum á framfæri við Hafnarfjarðarbæ sem að eigin frumkvæði breytti áætlunum hestvagnsins.

Það að vera vegan og hafa skoðun á framkomu við dýr, mennsk og ómennsk þýðir ekki að það sé verið að hatast út í þau sem halda dýr. Það að vera ósátt við kerfið og hvernig hlutunum hefur verið og er enn háttað hefur ekkert að gera með fólk sem elskar hestana sína. Það að óska þess að dýr verði ekki framar notuð í afþreyingarskyni er skoðun sem komið var á framfæri. Engir einstaklingar hafa verið sakaðir um dýraníð og ekkert þeirra sem lýsti skoðun sinni á þessari venju efast um góðvild hesteigandans eða vilja hennar til að hugsa vel um dýrin sín.“

Hefur færslan fengið gríðarleg viðbrögð og virðast flestir vera fylgjandi því að hestarnir fái áfram að vera í miðbænum.

Hvergi er þó minnst á kvörtunarbréfið til bæjarstjóra en skv. heimildum Fjarðarfrétta var haft í hótunum um að fyrirtækið færi með starfsemi sína úr bænum yrði ekki brugðist við.

Búast má við að bæjarráð taki bréfið til afgreiðslu og ef ástæða þykir til væri þá eðlilegt að þessum ásökunum verði vísað til Matvælastofnunar sem fer með eftirlit með hestahaldi.

Hestarnir í girðingu við Strandgötu

Ummæli

Ummæli