Tilkynning um mikilvægi tveggja metra reglunnar

Tveggja metra reglan var virt þegar áhugasamir hlýddu á Ingó veðurguð á Hrafnistu.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis sendu frá sér tilkynningu í gær vegna umræðu um fjarlægðarmörk og árétta mikilvægi reglna og leiðbeininga um tvo metra á milli fólks.

Í tilkynnningunni segir að tveggja metra reglan sé sett þar sem hún er ein af grunnstoðum sýkingarvarna. Nánd á milli fólks eykur áhættuna á því að fá smit. Komið hefur í ljós að einn metri á milli einstaklinga minnkar líkurnar á smiti fimmfalt. Fyrir hvern metra til viðbótar tvöfaldast líkurnar á því að forða fólki frá smiti. Á þeim grunni hafa reglur og leiðbeiningar um fjarlægðarmörk verið settar víða um heim.

Misræmi í orðalagi

Vegna misræmis í orðalagi í minnisblaði sóttvarnalæknis, reglugerð heilbrigðisráðherra og upplýsingum á covid.is, hefur misskilnings hefur gætt um fjarlægðarmörk.

Í 4. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 792/2020 er fjallað um almenna nálægðartakmörkun og má lesa auglýsinguna hér.

Frá því að faraldurinn kom upp hér á landi hefur stefnan verið sú að setja það í hendur fólks að fara eftir þeim leiðbeiningum og reglum sem settar hafa verið. Fólk þarf að vega og meta áhættuna hverju sinni til dæmis þar sem fólk kemur saman, skylt eða óskylt. Vega þarf og meta það með sínum nánustu hvernig samneyti er háttað, hafa upplýsingar um ferðir hvers annars og mögulegar smitleiðir.

Fyrst þegar fjarlægðarmörk voru sett á, á milli einstaklinga, var hún hluti af sóttvarnaraðgerðum til þess að minnka líkur á því að smit bærist á milli fólks. Tillögur sóttvarnalæknis hafa tekið breytingum eftir þróun faraldursins hér á landi og var til að mynda valfrjáls í sumar um tíma.

Krafan með reglunni, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins, er að aðilum í atvinnurekstri, hvaða rekstri sem það nær yfir, er skylt að tryggja fjarlægðarmörk á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.

Ekki kemur fram í reglugerðinni að einstaklingar þurfi að uppfylla fjarlægðarmörkin heldur er krafan lögð á starfsemi. Leiðbeiningar hafa hins vegar verið gefnar út af sóttvarnalækni þar sem biðlað er til fólks um að viðhafa fjarlægðarmörk á milli fólks. Í þessum leiðbeiningum hefur ýmist verið talað um að fjarlægðarmörkin skuli viðhafa á milli óskyldra aðila, ótengdra aðila eða aðila sem ekki deiliheimili. Þetta misræmi í orðalagi er því tilefni til útskýringar.

Einstaklingar eru því sérstaklega hvattir til virða fjarlægðarmörkin í umgengni við ókunnuga en í umgengni við tengda/skylda einstaklinga þarf að vega og meta hvort viðhafa skuli fjarlægðamörk.

Meðan tveggja metra reglan er í gildi getur rekstraraðili ekki skorast undan því að tryggja fjarlægðarmörkin og við því liggur sektarheimild. Ekki liggur fyrir sektarheimild fyrir einstaklinga sem virða ekki fjarlægðarmörk.

Fjöldi leiðbeininga hafa verið gerðar og reglur settar frá því faraldurinn kom upp og mörg álitamál komið til afgreiðslu hjá sóttvarnalækni sem meðal annars lítur að fjarlægðarmörkum.

Ummæli

Ummæli